31. mar. 2023

Endurnýjung samnings við Stjörnuna

Það var líf og fjör í Miðgarði þegar Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Sigurður Guðmundsson, formaður Stjörnunnar undirrituðu nýjan samstarfssamnings bæjarins og ungmennafélagsins. Í samningnum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur samningsaðila um útfærslu á íþróttastarfi í Garðabæ.

  • Samningur við Stjörnuna undirritaður.
    Samningur við Stjörnuna undirritaður. Fv. Pálmi Geir Jónsson fjármálastjóri Stjörnunnar, Sigurður Guðmundsson formaður Stjörnunnar, Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar, Hrannar Bragi Eyjólfsson formaður ÍTR Garðabæjar og Guðbjörg Linda Udengard sviðsstjóri fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar.

Það var líf og fjör í Miðgarði þegar Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar og Sigurður Guðmundsson, formaður Stjörnunnar undirrituðu nýjan samstarfssamnings bæjarins og ungmennafélagsins. Í samningnum er kveðið á um gagnkvæmar skyldur samningsaðila um útfærslu á íþróttastarfi í Garðabæ. 

„Að geta undirritað svona mikilvægan samning í Miðgarði, fjölnota íþróttahúsinu okkar sem ég fullyrði að er á heimsmælikvarða, er alveg sérstaklega skemmtilegt,“ sagði Almar bæjarstjóri.

Samkvæmt samningnum skal Stjarnan hafa það að markmiði í starfsemi sinni að bjóða börnum og unglingum skipulagt íþróttastarf undir leiðsögn vel menntaðra og hæfra leiðbeinenda þar sem lýðheilsa og forvarnargildi íþrótta er höfð að leiðarljósi. Jafnframt skal félagið hlúa að keppnis- og afreksíþróttafólki þannig að það geti náð sem bestum árangri.

Garðabær mun á móti styðja við fjárhagslegan rekstrar- og starfsgrundvöll félagsins með samkomulagi um afnot á íþróttamannvirkjum og beinum fjárframlögum sem renna meðal annars til íþróttaskóla Stjörnunnar, til almenns rekstrar félagsins og til afreksstarfsemi þess. Samningurinn gildir til loka árs 2025.