26. feb. 2021

Ertu búin/n að senda inn þína hugmynd?

Hugmyndasöfnun í lýðræðisverkefninu Betri Garðabæ stendur nú sem hæst og vel á annað hundrað hugmyndir hafa verið settar inn á hugmyndasöfnunarvefinn. Hugmyndasöfnun stendur yfir til og með 8. mars nk.

  • Betri Garðabær - sendu inn þína hugmynd!
    Betri Garðabær - sendu inn þína hugmynd

Hugmyndasöfnun í lýðræðisverkefninu Betri Garðabæ stendur nú sem hæst og vel á annað hundrað hugmyndir hafa verið settar inn á hugmyndasöfnunarvefinn þegar hugmyndasöfnunin er hálfnuð. Enn er tími til að senda inn góðar hugmyndir að smærri framkvæmdum í Garðabæ þar sem hugmyndasöfnunin stendur yfir til og með 8. mars nk. Engin takmörk eru á fjölda hugmynda sem hver og einn getur sett inn á hugmyndasöfnunarvefinn.

Óskað er eftir fjölbreyttum og góðum hugmyndum til að kjósa um í íbúakosningu í vor. Hugmyndirnar geta verið nýframkvæmdir sem m.a. geta eflt hreyfi- og leikmöguleika og haft jákvæð áhrif á nærumhverfið m.a. til útivistar og samveru, bætta lýðheilsu og aðstöðu til leikja- og skemmtunar.

Hér er hlekkur beint á hugmyndasöfnunarvefinn:  HUGMYNDASÖFNUNARVEFUR 2021

Hér má sjá nánari upplýsingar um lýðræðisverkefnið Betri Garðabæ.

Hægt að líka við og setja inn athugasemdir við hugmyndir

Þegar hugmynd hefur verið sett inn á hugmyndasöfnunarvefinn er hægt að deila henni á samfélagsmiðla og vekja athygli á henni og um leið er hægt að hvetja aðra til að fara inn á hugmyndasöfnunarvefinn og líka við hugmyndina. Á hugmyndasöfnunarvefnum er hægt að skoða allar hugmyndir sem hafa verið settar inn og þar er hægt að setja inn rök með eða á móti hugmyndum og líka við allar uppáhaldshugmyndirnar. Með því að setja inn ljósmyndir eða myndbönd með hugmyndunum er hægt að skýra þær betur út og framsetningin verður skemmtileg. Jafnframt er hægt að staðsetja hugmyndirnar á korti.

Matshópur fer yfir innsendar hugmyndir og kostnaðarmetur

Eftir að hugmyndasöfnun lýkur fer matshópur skipaður starfsmönnum bæjarins yfir innsendar hugmyndir og leggur fram ákveðinn fjölda hugmynda á kjörseðil þar sem hugmyndirnar eru kostnaðarmetnar. Horft verður til þess að þær hugmyndir sem fara á kjörseðilinn verði dreift landfræðilega jafnt um sveitarfélagið. 

100 milljónir til úthlutunar í rafrænum kosningum í vor

Þegar búið er að vinna úr hugmyndunum og kostnaðarmeta fá íbúar í Garðabæ tækifæri til að kjósa um hugmyndirnar og úthluta allt að 100 milljónum króna í verkefni sem þeir vilja sjá framkvæmd í bænum á þessu og næsta ári.

Rafræn kosning er fyrirhuguð 26. maí – 7. júní 2021. Gera má ráð fyrir að um það bil 30 verkefni verði á kjörseðli. Þátttaka í kosningunni er opin öllum þeim íbúum sem hafa skráð lögheimili í Garðabæ þegar kosning fer fram og verða 15 ára og eldri á kosningaárinu. Verkefni sem þarfnast minni undirbúnings fara í framkvæmd sumarið 2021 en stærri verkefnum verður lokið að hausti 2022.