Fánadagur heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna er í dag
Garðabær tekur þátt í fánadegi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna sem er í dag, 25. september. Tilgangur fánadagsins er að minna á mikilvægi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og að sýna stuðning í verki.
Í ár eru níu ár liðin frá því að 193 þjóðir Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Ísland, settu sér sameiginleg markmið, alls 17 heimsmarkmið um betri heim sem í grunninn fela í sér að fyrir árið 2030 takist heimsbyggðinni meðal annars að ná tökum á loftslagsbreytingum, auka jöfnuð og útrýma sárafátækt.
Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar; hinnar efnahagslegu, félagslegu og umhverfislegu. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf.
Til að sýna stuðning okkar við mikilvægi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna tekur Garðabær þátt í fánadeginum og flaggar fána heimsmarkmiðanna.
Tilgangur fánadagsins er að minna á mikilvægi heimsmarkmiðanna og að fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök, skólar og sveitarfélög um allan heim, sýni skuldbindingu sína við heimsmarkmiðin og aðgerðirnar sem þau krefjast.
Fánadagurinn var fyrst haldinn árið 2020 og hefur stuðningur við framtakið farið ört vaxandi. Hundruð fyrirtækja, stofnana, félagasamtaka, skóla og sveitarfélaga þátt í fánadeginum um allan heim undir heitinu Saman fyrir heimsmarkmiðin #TogetherForTheSDGs.