26. mar. 2025

Fatahönnuðir framtíðarinnar í Hönnunarsafninu

Undanfarið hafa nemendur í 4. bekk í grunnskólum Garðabæjar tekið þátt í fatahönnunarsmiðjum í Hönnunarsafninu. Afrakstur vinnunnar verður sýndur á Barnamenningarhátíð í Garðabæ.

Undanfarnar vikur hafa allir nemendur í 4. bekk í grunnskólum Garðabæjar tekið þátt í fatahönnunarsmiðjum í Hönnunarsafninu. Fatahönnuðurinn Stefán Svan og Ninna Þórarinsdóttir barnamenningarhönnuður tóku á móti áhugasömum nemendum sem unnu að sameiginlegri fatalínu á dúkkulísur.

Að sögn menningarfulltrúa var ótrúlega gaman að sjá hve vel krakkarnir unnu. „Þau voru niðursokkin í að skapa flott föt úr allskonar áhugaverðu efni,“ segir Ólöf Breiðfjörð, menningarfulltrúi Garðabæjar.

Afrakstur vinnunnar verður að sýningunni Dúkkulísur – Fatahönnuðir framtíðarinnar sem er liður í Barnamenningarhátíð í Garðabæ sem stendur yfir dagana 7. – 12. apríl.

Ljósmyndarinn Sigga Ella fangaði töfrana í aðdraganda Barnamenningarhátíðar á Hönnunarsafninu.