Fegra umhverfið og bæta aðgengi að útivistasvæðum
Starfsfólk umhverfishópa Garðabæjar hafa sinnt fjölbreyttum verkefnum í sumar og fegrað umhverfið svo um munar.
Umhverfishópar Garðabæjar hafa haft nóg á sinni könnu í sumar í fjölbreyttum og mikilvægum verkefnum víða um bæinn, verkefnum sem snúa m.a. að því að fegra umhverfið og bæta aðgengi að útivistasvæðum.
Vignir Snær Norðdahl, yfirflokkstjóri umhverfishópa, segir verkefnin fjölbreytt. „Í Sandahlíð er unnið að því að laga og bæta göngustíga með því að bera kurl í fjórar leiðir, verkefni sem mun gera svæðið aðgengilegra og betra fyrir útivistarfólk. Hóparnir hafa einnig sinnt þökulögnum, m.a. í íbúðargötum á Flötunum, og tekið þátt í beðahreinsun og öðrum störfum tengdum snyrtingu grænna svæða um bæinn. Svo má nefna að hóparnir hafa í samstarfi við garðyrkjustarfsmenn tekið þátt í gróðursetningu sumarblóma,“ tekur Vignir Snær sem dæmi.
Hann segir mikla dugnaðarforka starfa í umhverfishópum bæjarins í sumar. „Þau hafa skilað af sér mjög góðu verki. Flokkstjórarnir eiga einnig mikið hrós skilið,“ segir Vignir Snær.
Meðfylgjandi eru fyrir og eftir myndir sem sýna nokkur af þeim verkefnum sem hóparnir hafa sinnt undanfarnar vikur.