19. júl. 2022

Ferðavagnar og umferðaröryggi í Garðabæ

Nokkuð hefur borið á því að kvartað sé undan ferðavögnum (hjólhýsum, húsbílum, fellihýsum, eftirvögnum o.þ.h.) sem lagt er í íbúðargötur bæjarins. Hér má finna upplýsingar um hvað ber að hafa í huga við lagningu ferðavagna skv. umferðarlögum.

  • Ferðavagnar eftirvagnar
    Mynd: Skjáskot fengið úr fræðslumyndbandi Samgöngustofu um eftirvagna (ferðavagna)

Nokkuð hefur borið á því að kvartað sé undan ferðavögnum (hjólhýsum, húsbílum, fellihýsum, eftirvögnum o.þ.h.) sem lagt er í íbúðargötur bæjarins. Margir þessara vagna eru stórir og byrgja sýn ökumanna. Slíkt getur verið hættulegt sérstaklega vegna barna að leik við heimili sín. Dæmi er um að ökumaður hafi þurft að nauðhemla vegna barns sem hljóp á eftir bolta fram undan hjólhýsi í íbúðargötu í bænum.

Reglur um lagningu ferðavagna - sömu reglur og um önnur ökutæki

Samkvæmt umferðalögum eru tjaldvagnar, fellihýsi, hjólhýsi, kerrur og þess háttar vagnar flokkaðir sem ökutæki. Því gilda sömu reglur um lagningu ferðavagna og um önnur ökutæki. Þannig má t.d.:

  • Ekki stöðva ökutæki eða leggja því þannig að valdið geti hættu eða óþarfa óþægindum fyrir aðra umferð.
  • Einungis stöðva eða leggja ökutæki hægra megin í akstursstefnu.
  • Ekki stöðva eða leggja ökutæki á stöðum sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð slíkra ökutækja, svo sem gangstétt, göngustíg, göngugötu, hjólarein eða hjólastíg. Sama á við um umferðareyjar, grassvæði eða aðra svipaða staði.
  • Ekki leggja þannig að skyggi á umferðarmerki eða umferðarljós.
  • Ekki leggja að hluta eða í heild fyrir framan innkeyrslu að húsi eða lóð.
  • Ekki leggja í snúningshaus botnlangagötu.
  • Ekki leggja þannig að hindri aðgang að öðru ökutæki eða færslu þess af staðnum.
  • Ekki leggja við vatnshana slökkviliðs.

 Samgöngustofa er með góða upplýsingasíðu, samgongstofa.is/eftirvagnar ,  um eftirvagna (ferðavagna) þar sem m.a. má finna góð ráð um akstur með eftirvagna. Á vef Samgöngustofu má líka sjá hlekk í ný umferðarlög frá 2020 og þar er líka samantekt á helstu nýmælum laganna.

Tilgreindir staðir fyrir losun úr ferðasalernum

Eigendur ferðavagna eru einnig minntir á að ekki má losa úr ferðasalernum í niðurföll við íbúðarhús heldur eingöngu á tilgreindum stöðum fyrir slíka losun.  Á vef Umhverfisstofnunar má finna upplýsingar um losunarstaði fyrir ferðasalerni og auk þeirra staða sem þar koma fram eru ýmsar þjónustustöðvar olíufyrirtækja og tjaldstæði sem bjóða upp á slíka losun. 

Njótum sumarsins og sýnum tillitssemi.