Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2024 samþykkt
Þjónusta, ábyrgur rekstur og fyrirhyggja leiðarljós áætlunarinnar
-
„Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2024 endurspeglar áherslur um ábyrgan rekstur og búa samhliða í haginn til framtíðar svo hægt sé að standa vörð um þjónustu og lífsgæði allra íbúa. Við boðum aðhald til varnar sterkri stöðu“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri. Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2024 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi 7. desember.
„Fjárhagsáætlun Garðabæjar 2024 endurspeglar áherslur um ábyrgan rekstur og búa samhliða í haginn til framtíðar svo hægt sé að standa vörð um þjónustu og lífsgæði allra íbúa. Við boðum aðhald til varnar sterkri stöðu“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri. Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2024 var samþykkt á bæjarstjórnarfundi 7. desember.
Samhliða var lögð fram þriggja ára áætlun fyrir árin 2025, 2026 og 2027.
„Við sýnum fyrirhyggju og ábyrgð, hagræðum í rekstri og drögum úr framkvæmdum. Álögur í Garðabæ eru áfram lágar í samanburði við önnur sveitarfélög, þrátt fyrir hækkun útsvarsprósentu. Bærinn stendur vel og á að gera það áfram en í erfiðu rekstrarumhverfi er mikilvægt að verja trausta fjárhagsstöðu. Ég hvet íbúa til að kynna sér áætlunina og helstu áherslur,“ segir Almar
Háir vextir, verðbólga og óvissa í efnahagsmálum hefur talsverð áhrif á reksturinn. Þá er ólokið við fjárhagslegt uppgjör milli ríkis og sveitarfélaga um málefni fatlaðs fólks og fleiri málefni. Garðabær er ört stækkandi og talsverð fjölgun hefur orðið á yngstu íbúum í bænum og góð þjónusta bæjarins þarf að þróast í takt við það.
- Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir jákvæðri afkomu upp á 521 m.kr.
- Skuldaviðmið er 109% og veltufé frá rekstri nemur 8%.
- Gert er ráð fyrir nýjum lántökum að fjárhæð 4.500 m.kr. og greitt verði niður lán á árinu fyrir
tæplega 2.000 m.kr. - Íbúar verði um 19.800 árið 2024 og fjölgi um 2,5% milli ára.
„Þrátt fyrir hagræðingu er staðinn vörður um lögbundna þjónustu og megináhersla er áfram lögð á farsæld barna í öllu skóla- og tómstundastarfi. Gjaldskrárhækkunum er stillt í hóf og til að tryggja að hækkun fasteignamats lendi ekki að fullu á íbúum bæjarins er álagningarhlutfall fasteignaskatts, vatnsgjald og fráveitu lækkað,“ segir Almar.
Helstu atriði fjárhagsáætlunar:
- Garðabær er langt innan viðmiða bæði hvað varðar skuldareglu og jafnvægisreglu um heildarútgjöld til reksturs.
- Sjóðstreymi er sterkt og takmarkar þannig þörf á lántöku.
- Fasteignaskattur íbúðarhúsnæðis, holræsagjald og vatnsgjald lækka. Fasteignaskattur er sá lægsti meðal stærri sveitarfélaga
- Útsvarsprósenta í Garðabæ hækkar og verður 14,48%. Hún er næst lægst á meðal stærri sveitarfélaga.
- Áætlun gerir ráð almennt ráð fyrir 6% hækkun gjaldskráa í samræmi við verðlagsþróun.
- Dregið verður úr framkvæmdum en mikilvægar nýframkvæmdir og endurbætur á skólahúsnæði munu njóta forgangs
- Þá verður ráðist í hagræðingu í rekstri bæjarins með margvíslegum aðgerðum m.a. með hagkvæmari innkaupum og aukinni áherslu á stafrænar lausnir.
Skólahúsnæði í forgangi
Á árinu 2024 bíða fjölmörg verkefni, svo sem áframhaldandi uppbygging skólahúsnæðis og þá verður annar áfangi Urriðaholtsskóla tekinn í notkun á vormánuðum og leikskóli við Holtsveg hefur störf í byrjun árs.
Framkvæmdir við þriðja áfanga Urriðaholtsskóla munu einnig hefjast á árinu. Þar verður íþróttahús og sundlaug, auk annarra rýma. Samtals verður 1.625 m.kr. varið í uppbygging Urriðaholtsskóla árið 2024.
Hvatapeningar fyrir hvert barn verða kr. 55.000 og tekjutenging verður tekin upp.Aðstaða fyrir félagsstarf eldri borgara verður tekin í notkun á Álftanesi sem verður lyftistöng fyrir félagsstarf eldri borgara.
Blómstrandi mannlíf
Fjölbreytt og lifandi mannlíf og menning gerir tilveruna í Garðabæ litríkari. Bæjarhátíðir eins og Jazzþorpið og Rökkvan hafa vakið mikla athygli og tekið þátt í að festa Garðatorg í sessi sem miðpunkt menningar í bænum og svo verður áfram.
„Leiðarljós okkar er að standa vörð um að vellíðan og lífsgæði bæjarbúa verði tryggð til framtíðar. Garðabær er og verður áfram sveitarfélag sem keppist við að veita framúrskarandi þjónustu við íbúa,“ segir Almar.