31. mar. 2020

Fjárhagslegar aðgerðir Garðabæjar vegna COVID-19

Tillaga að aðgerðaráætlun að fyrstu viðbrögðum Garðabæjar yfir fjárhagslegar aðgerðir vegna COVID-19 faraldursins var samþykkt á fundi bæjarráðs Garðabæjar í morgun, þriðjudaginn 31. mars. Tillögunni var þar vísað til úrvinnslu og framkvæmdar bæjarstjóra Garðabæjar.

  • Bæjarstjórn í beinni
    Fundur bæjarstjórnar Garðabæjar 15. apríl kl. 17 er í beinni útsendingu hér á vef Garðabæjar.

Tillaga að aðgerðaráætlun að fyrstu viðbrögðum Garðabæjar yfir fjárhagslegar aðgerðir vegna COVID-19 faraldursins var samþykkt á fundi bæjarráðs Garðabæjar í morgun, þriðjudaginn 31. mars. Tillögunni var þar vísað til úrvinnslu og framkvæmdar bæjarstjóra Garðabæjar. Bæjarráð samþykkti jafnframt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja að gjalddögum fasteignaskatta og fasteignagjalda ársins verði fjölgað og/eða frestað til að létta greiðslubyrði íbúa og atvinnulífs.

Aðgerðaráætlunin er í átta liðum og þar er m.a. fjallað um leiðréttingu á þjónustugjöldum vegna skerðingar á þjónustu t.d. í leik- og grunnskólum, frestun á greiðslum fasteignagjalda á atvinnuhúsnæði, fjölgun á gjalddögum fasteignagjalda fyrir íbúa og atvinnulíf, sviðsmyndir sem sýna fjárhagsleg áhrif, framkvæmdir, sölu lóða og eigna, uppbyggingu nýrra svæða og hvernig við eflum samfélagið.

Samfélagið eflt

Í aðgerðaráætluninni er sérstaklega fjallað um velferð bæjarbúa, afkomu þeirra og hvernig hægt er að halda úti órofinni grunnþjónustu bæjarins. Lögð verður áhersla á virka upplýsingamiðlun til bæjarbúa í gegnum vef bæjarins um aðgerðir og þjónustu. Einnig verður leitað eftir ábendingum bæjarbúa sem snúa að aðbúnaði og velferð barna og ungmenna og heimilisofbeldi.

Í áætluninni er líka fjallað um hvernig hægt sé að nýta tækifæri til að auka nýsköpun og tækni á sviði velferðarþjónustu og að eflingu skapandi greina í samstarfi við skóla bæjarins. Einnig er þar farið yfir þætti sem varða leik- og grunnskóla, íþróttir og menningu, málefni fatlaðs fólks, eldri borgara og sumarstörf fyrir ungt fólk.

Uppbygging og framkvæmdir


Áframhaldandi uppbyggingu nýrra svæða verður framhaldið, s.s. í Urriðaholti, miðsvæði Álftaness, Eskiási, Garðahverfi og í hesthúsabyggð við Kjóavelli. Mikil áhersla verður einnig á atvinnuskapandi framkvæmdum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf í ljósi þess samdráttar sem blasir við og hefur verið ályktað um hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Í aðgerðaráætlun Garðabæjar er lagt til að skoða það að flýta viðhaldsframkvæmdum, flýta framkvæmdum við fyrirhugaða búsetukjarna fyrir fatlað fólk og ráðast í fráveituframkvæmdir. Einnig verða skoðaðir möguleikar á að flýta framkvæmdum sem rúmast innan samgöngusáttmála sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og ríkisins.

Upplýsingasíða um þjónustu og starfsemi Garðabæjar í tengslum við COVID-19 faraldurinn.

 

Áætlunina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan:

Aðgerðaráætlun Garðabæjar - viðbrögð vegna áhrifa COVID-19 - fyrstu aðgerðir

1. Leiðrétting á þjónustugjöldum vegna skerðingar á þjónustu

Bæjarráð hefur samþykkt tillögu um leiðréttingu á þjónustugjöldum í leik- og grunnskólum vegna skerðingar á þjónustu.

„Í þeim tilvikum sem þjónusta leik- og grunnskóla fellur niður eða skerðist vegna verkfalls, samkomubanns, veikinda eða sóttkvíar starfsmanna eða af öðrum sambærilegum ástæðum verða gjöld fyrir viðkomandi þjónustu leiðrétt í samræmi við hlutfall skerðingarinnar.

  • Í þeim tilvikum sem börn geta ekki nýtt sér þjónustu vegna sóttkvíar eða veikinda verða gjöld leiðrétt hlutfallslega. Ef foreldrar kjósa að nýta sér ekki þjónustu, t.a.m. með vísan til tilmæla yfirvalda um að foreldrar og forráðamenn haldi börnum sínum heima ef kostur er á hið sama við.
  • Ofangreint nær til þjónustugjalda leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila.
  • Ákvörðunin er tímabundin og gildir til loka maí. Endurskoðun fer fram að teknu tilliti til aðstæðna og verður fyrirkomulagið auglýst að nýju eigi síðar en 15. maí n.k.“

Unnið er að útfærslu málsins og mun leiðrétting koma til framkvæmda í byrjun apríl.

Árskort t.d. sundkort og bókasafnskort framlengjast sem nemur skerðingu á opnunartíma.

Við innheimtu gjalda verður markmiðið að veita sveigjanleika varðandi gjaldfresti í einstaka tilvikum með það að leiðarljósi við núverandi aðstæður að innheimtan sé sanngjörn.

2. Frestun á greiðslu fasteignagjalda

Gjalddögum fasteignaskatta og fasteignagjalda ársins er fjölgað til að létta mánaðarlega greiðslubyrði íbúa og atvinnulífs.

Eftirstöðvum ógjaldfallinna fasteignaskatta og fasteignagjalda ársins fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði verður dreift á mánuðina apríl/maí til desember og mun því gjalddagi fasteignagjalda í apríl (eindagi 15. maí) færast til 15 maí 2020 (eindagi 15. júní). Þetta er gert til þess að létta undir með þeim aðilum sem nú þegar hafa fundið fyrir eða munu finna fyrir tekjufalli vegna þeirra efnahags aðstæðna sem nú ríkja.

Eigendur atvinnuhúsnæðis sem hafa orðið fyrir verulegu tekjutapi geta sótt um frestun allt að þriggja gjalddaga fasteignaskatta og fasteignagjalda sem færast þá á fyrstu mánuði ársins 2021. Með verulegu tekjutapi er átt við að minnsta kosti 25% tekjufalli milli sömu mánaða á árunum 2019 og 2020.

Nánari útfærslur verða lagðar fyrir bæjarráð sveitarfélaganna.

3. Sviðsmyndir - fjárhagsleg áhrif - fyrstu viðbrögð

 

 V -leið 2020 
 a. Útsvar   kr. -800.000.000
 b. Fasteignaskattur og gjöld kr.  -
 c. Fasteignagjöld atv.h. (40%)  kr. -123.000.000
 d. Jöfnunarsjóður  kr. -180.000.000
 e. Gjaldskrár  kr. -50.000.000
 f. Hagræðing  kr. 100.000.000
 g. Covid19 útgjöld  kr. -25.000.000
 h. Félagsþjónusta  kr. -190.000.000
   Samtals: kr. -1.268.000.000

 

 U -leið 2020   2020-2021 
 a. Útsvar   kr. -1.000.000.000  kr. -1.150.000.000
 b. Fasteignaskattur og gjöld  -  -
 c. Fasteignagjöld atv.h frestun kr -123.000.000   
 d. Jöfnunarsjóður  kr. -180.000.000  kr. -210.000.000
 e. Gjaldskrár  kr. -50.000.000  kr. -50.000.000
 f. Hagræðing  kr. 100.000.000  kr. 130.000.000
 g. Covid19 útgjöld  kr. -25.000.000  kr. -25.000.000
 h. Félagsþjónusta  kr. -240.000.000   kr. -300.000.000
 Samtals:  kr. -1.518.000.000  kr. -1.605.000.000

Viðbrögð

a. Aukið aðhald í rekstri – sviðsstjórar leggi fram tillögur (Sjá lið 5)
b. Tryggjum lánalínu hjá Arion banka allt að 2,0 ma.
c. Kanna möguleika á frestun gjalddaga lána hjá lánstofnunum og ríkinu
d. Kanna möguleika á skammtímalán og langtímafjármögnun hjá LS

4. Framkvæmdir

a. Búsetukjarni fyrir fatlað fólk kr. 200.000.000
b. Fráveituframkvæmdir kr. 200.000.000
c. Viðhaldsframkvæmd (rekstur) - flýtt kr. 50.000.000

Skoðaðir verði möguleikar á að flýta framkvæmdum sem rúmast innan samgöngusáttmálans.

5. Tillögur sviðsstjóra til að mæta samdrætti og framkvæmd aðgerða samkvæmt tillögu HLH
Tillögur sviðsstjóra verða kynntar síðar.
Markmiðið er að ná fram hagræðingu í rekstri málaflokka að fjárhæð 100 – 200 mkr.

6. Sala lóða og eigna

a. Sala lóðar við Garðahraun 1
b. Sala lóða á miðsvæði Álftaness
c. Sala lóða á Hnoðraholt og í Vetrarmýri
d. Sala lóða við Eskiás
e. Sala eigna sem ekki tengjast grunnstoðum bæjarins.

 

7. Eflum samfélagið

a. Velferð bæjarbúa – órofin þjónusta
Lögð verður áhersla á velferð bæjarbúa, afkomu þeirra og að halda úti órofinni grunnþjónustu bæjarins. Myndað verði samvinnuteymi með heilsugæslunni og Hrafnistu, Ísafold til að miðla upplýsingum til bæjarbúa og sérstaklega til þeirra sem falla undir að tilheyra viðkvæmum hópum. Lögð verður áhersla á mjög virka upplýsingamiðlun til bæjarbúa í gegnum vef bæjarins um aðgerðir, þjónustu. Þá verður og leitað eftir ábendingum bæjarbúa um atriði sem snúa að aðbúnaði og velferð barna og ungmenna og heimilisofbeldi.

b. Könnun á aðstæðum bæjarbúa
Fjölskyldusvið og fræðslu- og menningarsviði verður falið að safna saman gögnum um þróun aðstæðna hjá einstaklingum, fjölskyldum næstu mánuði til að leggja grunn að frekari tillögugerð í samráði við hagsmunaaðila. Stofnaður verður faghópur innan sveitarfélagsins og milli sveitarfélaganna með sérstakri áherslu á börn, ungmenni og menntun þeirra, barnafjölskyldur, fatlað fólk, eldra fólk, atvinnulausa og viðkvæma og útsetta hópa.

c. Nýsköpun og tækni
Tækifæri verði nýtt til að auka nýsköpun og tækni á sviði velferðarþjónustu og óskað eftir samvinnu við félagsmálaráðuneytið. Jafnframt verði unnið með atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að frekari eflingu skapandi greina í samstarfi við skóla bæjarins.

Vinnu við verkefni í tengslum við stafræna framþróun verði flýtt og lögð áherslu á að nýttir verði möguleikar til að bæta þjónustu Garðabæjar með stafrænum lausnum.

d. Leikskólar og grunnskólar
Stofnaður hefur verið faghópur skólastjórnenda í leikskólum og í grunnskólum til að vinna að forgangsröðun verkefna, miðla á ábyrgan hátt upplýsingum til foreldra og styðja og vernda nemendur á erfiðum tímum.

e. Íþróttir og menning
Samstarf við íþróttafélögin verði efld og viðspyrna í íþrótta- og menningarmálum eflt í samstarfi við félögin og ÍSÍ. Sveigjanleiki skal ríkja varðandi að flýta greiðslum til íþróttafélaga innan ársins samkvæmt gildandi samstarfssamningum. Gildandi samstarfsamningar verði teknir til endurskoðunar við gerð næstu fjárhagáætlunar
Garðabær sem heilsueflandi samfélag leggur áherslu á að göngustígar og útisvæði séu aðgengileg almenningi og app um gönguleiðir og útvistarmöguleika í Garðabæ kynnt

f. Málefni fatlaðs fólks
Eflum fræðslu og upplýsingar til fatlaðs fólks og tryggjum tengsl með eftirliti á aðstæðum hvers og eins til að koma í veg fyrir einangrun og skorts á þjónustu. Hugum sérstaklega að þeim sem eiga heimili á sambýlum.

g. Eldri borgarar
Fjölskyldusvið safnar saman upplýsingum um aðstæður eldri borgara til að kanna tengsl við ættingja og tryggja að allir búi við þær aðstæður að fá mat. Starfsmenn í Jónshúsi taki að sér að skipuleggja útihringi spjall við eldri borgara sem búa einir.

h. Sköpuð verði sumarstörf fyrir ungt fólk
Unnið verði að því að tryggja fjölbreytt og gagnleg sumarstörf fyrir öll ungmenni í Garðabæ.

8. Uppbygging nýrra svæða

a. Urriðaholt 
Áframhaldandi uppbygging í Urriðaholti. Allar lóðir í austurhluta Urriðaholts eru að verða byggingarhæfar og þá er verið að vinna að gerð deiliskipulags fyrir 4. áfanga norðurhluta Urriðaholts

b. Miðsvæði Álftaness
Uppbygging er hafin á svæðinu með framkvæmdum við gatnagerð í Breiðumýri þar sem gert er ráð fyrir að byggja 252 íbúðir. Vinna við gatnahönnun á svæði við Þórukot og í Kumlamýri er hafin og má gera ráð fyrir að gatnagerð verði boðin út á árinu og lóðum úthlutað síðari hluta ársins eða í byrjun næsta árs.

c. Eskiás
Tilboð liggja fyrir í framkvæmdir við gatnagerð við Eskiás og má gera ráð fyrir að uppbygging á svæðinu hefjist í sumar. Við Eskiás er gert ráð fyrir 276 íbúðum og þar af 42 á lóðum í eigu Garðabæjar.

d. Garðahverfi
Verið er að vinna að gerð lóðarskilmála fyrir lóðir í Garðahverfi og stefnt er að því að þar geti komið til auglýsingar á lóðum í sumar. Í 1. áfanga væri um að ræða um 10 lóðir.

e. Hesthúsabyggð við Kjóavelli
Tillaga að breytingu á deiliskipulagi Kjóavalla hefur verið auglýst og í framhaldi af samþykkt hennar mun koma til úthlutunar hesthúsalóða og uppbyggingar á svæðinu.