24. apr. 2019

Fjölbreytt dagskrá á Sumardaginn fyrsta

Það verður mikið um að vera í Garðabæ frá morgni til kvölds á Sumardaginn fyrsta. Söguganga umhverfis Urriðavatn kl. 11, skátamessa í Vídalínskirkju kl. 13, skrúðganga frá Vídalínskirkju kl. 14, hátíðardagskrá við Hofsstaðaskóla kl. 14:30, sumarsýning Grósku á Garðatorgi opnar kl. 16 og Jazzhátíð Garðabæjar hefst um kvöldið kl. 20:30.

Það verður mikið um að vera í Garðabæ frá morgni til kvölds á Sumardaginn fyrsta.  Söguganga umhverfis Urriðavatn kl. 11, skátamessa í Vídalínskirkju kl. 13, skrúðganga frá Vídalínskirkju kl. 14, hátíðardagskrá við Hofsstaðaskóla kl. 14:30, sumarsýning Grósku á Garðatorgi opnar kl. 16 og Jazzhátíð Garðabæjar hefst um kvöldið kl. 20:30.

Upplýsingar um hvern viðburð fyrir sig má sjá í viðburðadagatalinu á vef Garðabæjar. 

Söguganga umhverfis Urriðavatn

Mæting er við bílastæði, austast í Kauptúni kl. 11. Gengið hringinn umhverfis Urriðavatn undir leiðsögn Erlu Biljar Bjarnardóttur, fyrrum umhverfisstjóra, á Degi umhverfisins. 

Urriðavatn er hraunstíflað vatn og þar er mikið fuglalíf. Vatnið og svæði umhverfis það njóta bæjarverndar vegna lífríkis og útivistargildis. Nýverið var klárað að útbúa göngubrú sem tengir saman gönguleiðina sem nær umhverfis vatnið.  Áætlað er að ganga rólega í u.þ.b. einn og hálfan tíma.

Hátíðarhöld á Sumardaginn fyrsta

Sumardagurinn fyrsti í Garðabæ hefst með skátamessu í Vídalínskirkju kl. 13:00. Skrúðganga fer frá Vídalínskirkju kl. 14:00 en gengið er að Hofsstaðaskóla þar sem hátíðahöldin fara fram frá kl. 14.30 og standa fram eftir degi.  Við Hofsstaðaskóla verður boðið upp á skemmtidagskrá þar sem allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, t.d. ýmis leiktæki, kassaklifur, veltibílinn. Blásarasveit Tónlistarskólans spilar og Ronja Ræningjadóttir syngur. Þá sýna nemendur úr FG atriði úr söngleiknum Clueless.  Hið víðfræga kökuhlaðborð verður á sínum stað í Hofsstaðaskóla.  
Eins og fyrri ár eru hátíðarhöldin í umsjá Skátafélagsins Vífils. 

Sumarsýning Grósku

Myndlistarfélagið Gróska opnar sína árlegu sumarsýningu á Garðatorgi kl. 16-18.  Að þessu sinni verður sýningin á flekum inni á Garðatorgi í göngugötunni.  Sýningin verður opin til og með 2. maí á opnunartíma torgsins. 

Jazzhátíð Garðabæjar

Jazzhátíð Garðabæjar hefst að kvöldi til á Sumardaginn fyrsta í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju þegar Björn Thoroddsen og Unnur Birna Bassadóttir stíga á svið kl. 20:30.  Hljómsveit úr Tónlistarskóla Garðabæjar hitar upp á undan eða frá kl. 20.  Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir.   Jazzhátíðin sem nú er haldin í 14. sinn stendur yfir dagana 25.-27. apríl.