Fjölbreytt dagskrá á þjóðhátíðardaginn
Það verður mikið fjör í Garðabæ á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Dagskráin er sérlega fjölbreytt og skemmtileg.
Boðið verður upp á fjölbreytta og spennandi dagskrá í Garðabæ á þjóðhátíðardaginn, eitthvað fyrir alla fjölskylduna.
Skrúðganga fer frá frá Hofsstaðatúni á Garðatorg klukkan 13.00. Skátafélagið Vífill og Blásarasveit Tónlistarskóla Garðabæjar leiða gönguna. Þá tekur hátíðleg stemning við á Garðatorgi þar sem blásarasveit leikur, fjallkona les ljóð og forseti bæjarstjórnar ávarpar gesti.
Aron Can og Prettyboitjokkó stíga á svið og Eva Ruza og Hjálmar kynna dagskrá fyrir þau yngstu.
Bílastæði Garðatorgs verður breytt í svæði fyrir fjör, þar verða hoppukastalar og kandífloss í aðalhlutverki.
Í Sveinatungu verður boðið upp á glæsileg kaffihlaðborð Kvenfélags Garðabæjar. Heitir réttir, marengstertur og pönnukökur er meðal þess sem verður á boðstólum.
Við bókasafnið verður fánasmiðja og andlitsmálun, á milli klukkan 14.00 og 16.00.
Klukkan 20.00 hefst glæsileg tónlistardagskrá í Tónlistarskóla Garðabæjar, þar kemur Sigríður Thorlacius fram ásamt góðum hópi hljóðfæraleikara.
Þetta og miklu fleira í Garðabæ á þjóðhátíðardaginn.