16. júl. 2021

Fjölbreytt sumardagskrá bókasafnsins

Það sem af er sumri hefur verið fjölbreytt og skemmtileg dagskrá í Bókasafni Garðabæjar og áfram verða fastir viðburðir sem hægt er að sækja heim. Þriðjudagsleikar, föstudagssmiðjur og sumarlestur eru meðal viðburða safnsins.

  • Þriðjudagsleikar bókasafnsins
    Þriðjudagsleikar - skemmtilegir útileikir Bókasafns Garðabæjar

Það sem af er sumri hefur verið fjölbreytt og skemmtileg dagskrá í Bókasafni Garðabæjar og áfram verða fastir viðburðir sem hægt er að sækja heim.  Á þriðjudögum kl. 13 er boðið upp á ,,Þriðjudagsleika" og á föstudögum eru sumarsmiðjur fyrir börn á grunnskólaaldri í aðalsafninu á Garðatorgi 7.  Ekki er of seint fyrir börn að taka þátt í árlegum sumarlestri bókasafnsins sem er lestrarátak fyrir grunnskólanemendur yfir sumartímann.  Uppskeruhátíð sumarlesturs safnsins verður haldin laugardaginn 21. ágúst kl. 13.

Þriðjudagsleikar - skemmtilegir útileikir

Þriðjudagsleikar eru útileikir með sumarstarfsfólki Bókasafns Garðabæjar á torginu fyrir framan safnið á Garðatorgi 7. Boðið er upp á tónlist, teygjó, snú snú, sippó og krítar. Allir krakkar velkomnir.
Þriðjudagsleikar verða á hverjum þriðjudegi klukkan 13:00 til 17. ágúst.

Sumarsmiðjur á föstudögum 

Föstudagssmiðjur eru smiðjur fyrir grunnskólabörn og eru haldnar á hverjum föstudegi milli kl. 10 og 12 til og með 20. ágúst. Eftir smiðjuna er lestrarhestur vikunnar dreginn út í sumarlestrinum.
Föstudaginn 30. júlí verður sérstök Harry Potter dagskrá í safninu.  Hér í frétt á vef bókasafnsins má sjá dagskrá á hverjum föstudegi. 

Sumarlestur Bókasafns Garðabæjar - uppskeruhátíð í ágúst

Sumarlestur er lestrarátak sem hvetur börn til að lesa í sumarfríi skólanna til að tapa ekki niður lestrargetu sinni. Börnin setja sér lestrarmarkmið, skrá lesturinn í lestrardagbókina, fá límmiða fyrir hverja lesna bók og geta fyllt út umsagnarmiða sem þau skila í lukkukassann og úr honum er dreginn lestrarhestur vikunnar, sem fær bók í verðlaun.  Þemað í ár er eldgos og geta þátttakendur hengt upp pappírshraunmola með nafninu sínu á bókahraunið hjá eldfjallinu á bókasafninu.

Allir eru velkomnir á uppskeruhátíð Sumarlesturs Bókasafns Garðabæjar sem verður haldin laugardaginn 21. ágúst kl.13 - 14 á safninu við Garðatorg 7.  Gunnar Helgason rithöfundur les þar upp úr bók sinni Palli playstation. Allir virkir þátttakendur lestrarátaksins fá glaðning.