27. nóv. 2020

Fjölbreytt verkefni fyrir börn á barnasattmali.is

Vefurinn barnasattmali.is, inniheldur fræðslu um Barnasáttmálann og mannréttindi barna fyrir börn á öllum aldri, kennara og foreldra.

  • Barnasáttmálinn
    Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna

Þann 20. nóvember sl. á degi mannréttinda barna opnaði nýr og endurbættur vefur um Barnasáttmálann. Vefurinn barnasattmali.is, inniheldur fræðslu um Barnasáttmálann og mannréttindi barna fyrir börn á öllum aldri, kennara og foreldra.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, eða Barnasáttmálinn eins og hann er gjarnan
nefndur, var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þann 20. nóvember 1989.
Barnasáttmálinn var fullgildur fyrir Íslands hönd árið 1992 og lögfestur hér árið 2013. Það þýðir að
hann er hluti af íslenskri löggjöf. Aðildarríki samningsins eru skuldbundin til þess að kynna
Barnasáttmálann jafnt börnum sem og fullorðnum.

Barnvæn útgáfa og fræðsla fyrir fagfólk, foreldra o.fl.

Á vefnum, barnasattmali.is,  er að finna Barnasáttmálann á barnvænu máli og á táknmáli. Jafnframt er á vefnum vefþula sem nýtist blindum og sjónskertum börnum. Barnvæna útgáfan er aðgengileg á fjölda tungumála og það sama gildir um heildartexta sáttmálans. Fjölbreytt verkefni eru á vefnum fyrir börn í þremur aldursflokkum; 6-9 ára, 10-12 ára og 13-18 ára.

Þá er fræðsla fyrir fagfólk, foreldra og aðra áhugasama um Barnasáttmálann, sögu hans og innihald.
Enn fremur eru upplýsingar um mannréttindi barna fyrir foreldra á ensku og pólsku. Vefurinn og útgáfa fræðsluefnis um Barnasáttmálann er samstarfsverkefni Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, UNICEF á Íslandi og umboðsmanns barna, í samvinnu við Menntamálastofnun.

Garðabær innleiðir Barnasáttmálann

Á undanförnum misserum hafa skref verið tekin í þá átt að innleiða Barnasáttmálann í starfi Garðabæjar. Skólar í Garðabæ hafa unnið margvísleg verkefni tengd Barnasáttmálanum og Flataskóli var einn af fyrstu tveimur skólum á Íslandi til að fá titilinn réttindaskóli UNICEF fyrir nokkrum árum. Í haust var undirritaður samstarfssamningur við UNICEF á Íslandi og félagsmálaráðuneytið um verkefnið Barnvæn sveitarfélög þar sem Garðabær innleiðir Barnasáttmálann í stjórnsýslu sína.
 Sjá frétt hér á vef Garðabæjar.