27. júl. 2021

Fjölbreyttar sýningar í Hönnunarsafninu

Í Hönnunarsafni Íslands eru margar fjölbreyttar sýningar í sýningarsölum safnsins.

  • Kristín Þorkelsdóttir SÝNING
    Verk Kristínar Þorkelsdóttur í Hönnunarsafni Íslands

Í Hönnunarsafni Íslands eru margar fjölbreyttar sýningar í sýningarsölum safnsins. Safnið er til húsa að Garðatorgi 1 og er opið alla daga nema mánudaga frá 12-17. 

Kristín Þorkelsdóttir - SÝNING

Aðalsýning Hönnunarsafnsins er sýning á verkum hönnuðarins Kristínar Þorkelsdóttur. Fáir hér á landi hafa skilað af sér jafn mörgum listaverkum, sem tekið er sem sjálfgefnum, og hönnuðurinn Kristín Þorkelsdóttir. Kristín er bæði hönnuður fjölmargra umbúða um matvæli og höfundur núgildandi peningaseðlaraðar, sem hún vann að ásamt hönnuðinum Stephen Fairbairn. Þá hefur Kristín hannað urmul auglýsinga, bækur og ýmis þjóðþekkt merki, sem mörg hafa verið í notkun í yfir fimm áratugi.
Sýningin opnaði í maí og stendur út árið.

,,NÁTTÚRULITUN í nútímasamhengi"

Í rannsóknarrými safnsins á efri hæð er hægt að sjá sýninguna ,,NÁTTÚRULITUN í nútímasamhengi"
Sigmundur er fatahönnuður sem útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2019 og hefur afnot af rannsóknarrými safnsins í sumar þar sem gestir fá innsýn í rannsóknar- og hönnunarferli. Markmið Sigmundar er að þróa ný kerfi í sjálbærri hönnun og umhverfisvænni framleiðslu sem nýtir auðlindir Íslands. Verkefnið sýnir hversu fjölbreytta liti má ná fram með náttúrulegu litarefni úr íslensku umhverfi.

Módelsmiður í vinnustofudvöl

Undanfarin misseri hafa hönnuðir verið í svo kallaðri vinnustofudvöl í anddyri safnsins á jarðhæð. Í sumar er það Sveinbjörn Gunnarsson sem sýnir þar módelgerð. Sveinbjörn Gunnarsson hefur starfað sem grafískur hönnuður undanfarin 20 ár. Hann hefur alla tíða haft áhuga og gaman af módelgerð og míneatúrum sem hann skapar af einstakri natni og hugmyndaauðgi. Efniviðinn finnur hann í sínu nánasta umhverfi og umbreytir á skapandi hátt.

Hér á vef hönnunarsafnsins er hægt að lesa nánar um hverja sýningu.