19. des. 2024

Fjölmennt á styrktartónleikum í Vídalínskirkju

Yfir 500 gestir sóttu glæsilega jólatónleika í Vídalínskirkju. Tónleikarnir eru samvinnuverkefni þýska sendiráðsins, Garðabæjar, Vídalínskirkju og Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Hinir árlegu tónleikar þýska sendiráðsins fóru fram föstudagskvöldið 13. desember en tekið var við frjálsum framlögum til Landsbjargar. Ríflega 500 gestir fylltu Vídalínskirkju og óhætt að segja að mikil stemning hafi skapast.

Listamennirnir sem komu fram gáfu allir vinnu sína en það voru fjórir af okkar bestu óperusöngvurum þau Kristinn Sigmundsson, Hallveig Rúnarsdóttir, Gissur Páll Gissurarson og Hildigunnur Einarsdóttir. Með söngvurunum léku Jóhann Baldvinsson á orgel og Helga Bryndís Magnúsdóttir á píanó. Mótettukórinn söng einnig af miklu listfengi og tók undir í nokkrum lögum með einsöngvurunum.

Dagskráin var þó ekki öll á klassískum nótum því Korsiletturnar tóku nokkur lög og Einar Örn Magnússon og Matthías Helgi Sigurðarson sungu og spiluðu sig inn í hjörtu viðstaddra. Í upphafi tónleika hélt sr. Sigurvin Lárus Jónsson ávarp á lýtalausri þýsku en einnig stigu í pontu bæjarstjóri Garðabæjar Almar Guðmundsson og sendiherra Þýskalands á Íslandi Clarissa Duvigneau.

Að loknum tónleikum bauð þýska sendiráðið upp á veitingar að þýskum sið og gestir héldu út í nýfallinn snjó glaðir í hjarta. Tónleikarnir eru samstarfsverkefni þýska sendiráðsins, Menningar í Garðabæ og Vídalínskirkju.

Meðfylgjandi eru myndir sem Ernir Ómarsson tók