Fjölmennur fræðslufundur um farsældarþjónustu
Fræðslufundur í tengslum við farsældarlögin sem haldinn var í Sveinatungu í seinustu viku var vel sóttur.
Fræðslufundur í tengslum við farsældarlögin sem haldinn var í Sveinatungu í síðustu viku var vel sóttur. Þar hélt Sólveig Norðfjörð, verkefnastjóri farsældar, erindi fyrir tengiliði, málstjóra og starfsfólk sem veitir farsældarþjónustu og starfar ýmist á leikskólum, í grunnskólum og á velferðar- eða á fræðslu- og menningarsviði Garðabæjar.
Á fundinum var farið yfir verklag í farsæld sem snýr að gerð stuðningsáætlana.
„Málstjórar á velferðarsviði og starfsfólk skóla vinna einstaklingsbundnar stuðningsáætlanir með börnum, foreldrum og fagfólki sem veita börnum þjónustu. Erindið sem ég hélt er hluti af fræðslufundaröð sem snúa að innleiðingu farsældarlaga. Það er ánægjulegt að sjá hvað starfsfólk í Garðabæ er áhugasamt og margir sem gefa sér tíma til að taka þátt í þessu,“ segir Sólveig spurð út í fræðslufundinn.
Fræðslufundurinn var haldinn í Sveinatungu, fundarsal Garðabæjar á Garðatorgi.
Farsæld í þágu barna
Á Íslandi hafa ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna tekið gildi. Lögum þessum er ætlað að stuðla að farsæld barna. Meginmarkmið laganna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Foreldrar og börn geta leitað til tengiliða Garðabæjar til að sækja þjónustu við hæfi. Hér má lesa nánar um farsældarlögin.