1. okt. 2019

Fjölsótt minjaganga um Garðahverfi

Fjölmennt var í lýðheilsu- og minjagöngu um Garðahverfi og Garðaholt sem haldin var á fögru haustkvöldi miðvikudaginn 25. september sl.

  • Minjaganga um Garðahverfi
    Minjaganga um Garðahverfi

Fjölmennt var í lýðheilsu- og minjagöngu um Garðahverfi og Garðaholt sem haldin var á fögru haustkvöldi miðvikudaginn 25. september sl. Minjaáhugafólk og náttúruunnendur streymdu að úr öllum áttum og leiddi Rúna K. Tetzschner gönguna sem hófst við Garðakirkju. Þaðan var haldið niður að hinu forna vatnsbóli, Garðalind, og áfram í norðvestur meðfram sjónum. Skoðaðar voru leifar þurrabýla og verbúða, bæjatóftir, grjóthlaðin gerði, varnargarðar, göngubrýr og brunnar svo fátt eitt sé nefnt og göngugarparnir létu sig ekki muna um að tipla yfir þýflendi og grjót til að komast að minjunum. 

Gangan endaði í Króki, litla kotinu í Garðahverfi sem varðveitt er með upprunalegu innbúi síðustu ábúenda þar sem boðið var upp á kaffi og nánari fræðslu um ábúðina í Króki. Heildarvarðveisla alþýðubæjar eins og Króks er fágæt og það gefur safninu mikið gildi. Óvenjulegt er jafnframt að í kringum bæinn hefur varðveist byggðaheild, Garðahverfi, sem enn er tiltölulega ósnortin sveit í miðju þéttbýli. Garðar eru forn jörð og hefur þar staðið kirkja að minnsta kosti frá því á 12. öld. 

Á fésbókarsíðu Króks má einnig sjá fleiri myndir úr göngunni.

Lýðheilsugöngurnar í Garðabæ í september fóru fram í samstarfi við Ferðafélag Íslands. Þetta var síðasta gangan í þessari lotu. Þetta er þriðja árið í röð sem boðið er upp á lýðheilsugöngur á miðvikudögum í september en Garðabær hefur einnig verið með sögu- og útivistargöngur á vorin. 

Minjaganga um Garðahverfi