2. maí 2022

Fjör við opnun Miðgarðs

Hið nýja fjölnota íþróttahús Garðabæjar, Miðgarður, var opnað með formlegum hætti laugardaginn 30. apríl sl. þegar boðið var til hátíðar í húsinu frá 13-16. Fjölbreytt skemmtidagskrá var í húsinu og gestum gafst kostur á að skoða íþróttamannvirkið

  • Opnunarhátíð Miðgarðs
    Opnunarhátíð Miðgarðs

Hið nýja fjölnota íþróttahús Garðabæjar, Miðgarður, var opnað með formlegum hætti laugardaginn 30. apríl sl. þegar boðið var til hátíðar í húsinu frá 13-16. Fjölbreytt skemmtidagskrá var í húsinu og gestum gafst kostur á að skoða íþróttamannvirkið en bygging hússins er ein stærsta framkvæmd sem Garðabær hefur ráðist í.

Garðbæingar á öllum aldri fjölmenntu í heimsókn í Miðgarð í dag þar sem boðið var upp á skemmtilega þrautabraut, knattíþróttir, tennis, badminton, lyftingar, klifur, andlitsmálningu og margt fleira. Einn stærsti klifurveggur landsins er í Miðgarði og var mikill áhugi á að fá að prófa hann undri dyggri aðstoð leiðbeinenda á staðnum. Þau Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar fluttu stutt ávörp þar sem þau lýstu ánægju sinni með tilkomu hússins og mikilvægi þess fyrir íþrótta- og heilsueflandi starf Garðabæjar til framtíðar. Bæjarlistamenn Garðabæjar þau Unnur Ösp Stefánsdóttir og Björn Thors fluttu ljóð á hátíðinni, bræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir fluttu ljúfa jazztóna og dj dóra Júlía þeytti skífum. Helgi Björns og Reiðmenn vindanna stigu á svið og héldu uppi stuðinu og fengu til sín góðan gest úr Garðabæ söngkonuna Birgittu Haukdal.

Nafnið Miðgarður var valið úr nafnasamkeppni sem var haldin fyrr í vetur og við þetta tækifæri voru veittar viðurkenningar til þeirra Garðbæinga sem sendu inn tillögu um nafnið sem varð fyrir valinu. Samkvæmt goðafræðinni er Miðgarður miðja heimsins og sá staður þar sem mannfólkið býr. Það rímar vel við hugmyndir um fjölnota íþróttahúsið í Vetrarmýri í Garðabæ þar sem vonast er eftir lífi og fjöri á degi hverjum ásamt því að þar verður rými fyrir fjölbreytt viðfangsefni. 

Fleiri myndir frá hátíðinni má sjá á fésbókarsíðu Garðabæjar. 

Opnunarhátíð Miðgarðs

Opnunarhátíð Miðgarðs

Opnunarhátíð Miðgarðs

Opnunarhátíð Miðgarðs