Fjórfaldir tónleikar í tilefni 60 ára afmælis
Tónlistarskóli Garðabæjar fagnar 60 ára afmæli í ár og að því tilefni verða stórglæsilegir afmælistónleikar haldnir í húsakynnum skólans við Kirkjulund 11 þann 9. nóvember. Afmælisdagskránni er ætlað að varpa ljósi á það fjölbreytta og lifandi starf sem boðið er upp á í skólanum.
Í ár fagnar Tónlistarskóli Garðabæjar 60 ára afmæli og að því tilefni verður glæsileg afmælishátíð í skólanum þann 9. nóvember. Laufey Ólafsdóttir skólastjóri Tónlistarskóla Garðabæjar og Linda Margrét Sigfúsdóttir aðstoðarskólastjóri lofa stórskemmtilegri dagskrá sem sýnir hversu fjölbreytt starf fer fram innan veggja skólans.
„Skólinn er orðinn 60 ára og okkur fannst rétt að halda upp á það með því að bjóða fólki í heimsókn og sýna starfið okkar,“ segir Laufey sem hefur verið skólastjóri Tónlistarskóla Garðabæjar frá árinu 2012.
„Við höldum ferna tónleika yfir daginn, klukkan 13:00, 14:00, 15:00 og svo klukkan 16:00,“ bætir Linda við.
Um 240 nemendur úr öllum deildum skólans koma fram á afmælistónleikunum og er dagskráin skipulögð þannig að áhorfendur fá góða innsýn inn í það fjölbreytta nám sem er í boði í skólanum.
Það er því óhætt að segja að dagskráin verði glæsileg og verður gaman fyrir aðstandendur nemenda skólans að koma á afmælistónleika en dagskráin en líka spennandi fyrir allt tónlistaráhugafólk og ekki síst fyrir þau sem eru áhugasöm um að hefja nám í skólanum.
Fjölbreytt og lifandi skólastarf
Deildir skólans eru sjö talsins og ættu flestir að finna eitthvað við sitt hæfi. „Við erum með góða einkakennslu en hér er líka öflugt hópstarf og félagslíf. Nemendur fá til dæmis tækifæri til að taka þátt í fjölbreyttu samspili. Svo er farið í alls konar ferðir, á landsmót og skemmtanir utan skólans. Það hafa myndast sterk vinatengsl hérna í skólanum,“ segir Laufey.
Linda tekur undir og bætir við: „Við fórum til dæmis út til Spánar í sumar með C-sveitinni og þar þjappaðist hópurinn heldur betur saman. Við fórum á tónleikahátíð og í skrúðgöngur með öðrum lúðrasveitum, þessi ferð var bæði til gagns og gamans.“
En hvernig gengur að undirbúa svona tilkomumikla afmælishátíð í skólanum? „Það gengur vel, þetta er svo skemmtileg vinna og gaman að sjá kennara vinna saman að atriðum fyrir afmælishátíðina, þetta þéttir hópinn enn frekar saman,“ segir Linda.
„Nemendur er spenntir og það myndast mikil stemning í skólanum. Það var gaman að byrja starfið í haust vitandi af afmælinu fram undan, það hefur verið mikil hvatning,“ bætir Laufey við.
Að lokum vilja þær Laufey og Linda taka fram að skólinn er fyrir alla. „Við tökum vel á móti öllum og okkar markmið er að nemendur séu glaðir og að þeim líði vel.
Afmælisdagskráin hefst klukkan 13:00 þann 9. nóvember í Tónlistarskóla Garðabæjar, Kirkjulundi 11. Áhugasöm geta fylgst með á vefsíðuskólans, tongar.is.