27. sep. 2023

Fleiri dagdvalarrými á Ísafold

Ísafold er ein af mikilvægustu stoðþjónustum fyrir eldra fólk í Garðabæ. 

Sjúkratryggingar Íslands hafa samþykkt að fjölga dagdvalarrýmum á Hrafnistu Ísafold í Garðabæ úr 20 rýmum í 30.

Þetta hefur mikla þýðingu fyrir starfsemina sem er mikið notuð, en almenn rými verða 22 en voru áður 16 og sérhæfð rými fyrir einstaklinga með heilabilunarsjúkdóm fara úr fjórum í átta. Ísafold er ein af mikilvægustu stoðþjónustum fyrir eldra fólk í Garðabæ, en í húsinu rekur Garðabær þjónustumiðstöð fyrir stuðnings og öldrunarþjónustu bæjarins og Hrafnista rekur hjúkrunarheimili og dagdvölina.

Í dagdvöl Ísafoldar er fjölbreytt framboð af virkni í fallegu umhverfi sem býður upp á hlýlegan heimilisbrag. Áhersla er lögð á samfélagslega þátttöku, skynjun og áhrif umhverfis og upplifunar á velferð og vellíðan. Á Ísafold er iðju- og sjúkraþjálfun sem starfar í nánu samstarfi við dagdvölina. Markmið dagdvalar er að rjúfa félagslega einangrun, bæta lífsgæði og viðhalda virkni og gefa íbúum Garðabæjar áfram tækifæri til að tilheyra og taka þátt í sínu samfélagi. Horft er á styrkleika hvers og eins og tekið mið af getu þannig að hver og einn fái að njóta sín og finni fyrir öryggi og vellíðan.

Á fundi bæjarráðs á þriðjudag var samþykki Sjúkratrygginga tekið fyrir og bæjarráð lýsti sérstakri ánægju með fjölgunina í fundargerð sinni.

„Garðabær hefur unnið ötullega að því ásamt Hrafnistu að fjölga rýmum. Það er gleðilegt að ráðherra og Sjúkratryggingar hafi orðið við því. Okkur þykir einna vænst um að þarna fjölgar rýmum fyrir einstaklinga með heilabilun og ekki er vanþörf á slíkum rýmum,“ segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar og María Fjóla Harðardóttir, forstjóri Hrafnistu tekur undir orð bæjarstjórans.