25. feb. 2025

„Fólk brosir bara þegar það sér mig nálgast á bílnum“

Lítill og lipur rafmagnsbíll sem var tekinn í notkun í áhaldahúsi Garðabæjar fyrir áramót vekur lukku hjá bæjarbúum. Það er hann Hjalti Þórarinsson sem fer um bæinn á bílnum og tæmir ruslafötur.

  • „Fólk brosir bara þegar það sér mig nálgast á bílnum“
    Lítill og lipur rafmagnsbíll sem var tekinn í notkun í áhaldahúsi Garðabæjar fyrir áramót vekur lukku hjá bæjarbúum. Það er hann Hjalti Þórarinsson sem fer um bæinn á bílnum og tæmir ruslafötur.

Fyrir áramót var lítill og nettur rafmagnspallbíll tekinn í notkun í áhaldahúsi Garðabæjar. Hjalti Þórarinsson fer um bæinn á umræddum bíl og tæmir ruslafötur bæjarins sem eru orðnar hátt í 200 talsins ásamt því að sjá til þess að allt sé snyrtilegt í kringum grenndargáma bæjarins.

Nýi bíllinn er lítill en öflugur og kemst vel um stíga bæjarins, líka í snjó og slabbi sem sýndi sig og sannaði í vetur „Það er auðvitað búið að moka mestan snjó áður en Hjalti fer af stað, en bíllinn kemst þetta vel,“ segir Sigurður Hafliðason, forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Garðabæjar. „Þetta er stórkostlegt starf sem Hjalti vinnur hjá Garðabæ,“ bætir hann við.

IMG_1932

Glöggir bæjarbúar hafa séð Hjalta og litla rafmagnsbílinn víða um Garðabæ undanfarna mánuði.

Vekur lukku hjá bæjarbúum

Hjalti segir nýja bílinn frábæran og auðvelda honum starfið til muna þar sem hann kemst lipurlega um stíga bæjarins án þess að raska ró gangandi vegfaranda. „Fólk brosir bara þegar það sér mig nálgast á bílnum og er greinilega ánægt með hann,“ segir Hjalti. „Og hann kemst allt, hann var alveg geggjaður í snjónum.“

20241129_085316

Hjalti fór um allan bæ á litla rafmagnsbílnum í vetur, óháð veðri og færð.