5. jún. 2020

Fólkvangurinn Hlið á Álftanesi stækkaður

Markmið friðlýsingarinnar er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota. Fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði eru sérstaklega áhugaverð til náttúruskoðunar svo sem fugla- og fjöruskoðunar, en meðal tegunda sem finnast innan fólkvangsins eru margæs, æðarfugl, rauðbrystingur, sendlingur og tildra. 

  • Undirritun um stækkun fólkvangsins Hliðs á Álftanes
    Undirritun um stækkun fólkvangsins Hliðs á Álftanesi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur undirritað auglýsingu um stækkun friðlýsingar fólkvangsins Hliðs á Álftanesi. Undirritunin fór fram í fallegu sumarveðri, fimmtudaginn 4. júní sl., á Hliði að viðstöddum bæjarstjóra Garðabæjar og fulltrúum bæjarstjórnar Garðabæjar, fulltrúum umhverfisnefndar Garðabæjar, starfsfólki sveitarfélagsins, ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar. Að lokinni undirritun var boðið til pönnukökuveislu hjá Jóhannesi Viðari Bjarnasyni, verti í Hliði.

Fólkvangurinn Hlið

Hlið var friðlýst sem fólkvangur árið 2002. Að tillögu Garðabæjar var ráðist í að skilgreina fólkvangsmörkin að nýju og allt land Hliðs sem er í eigu Garðabæjar er nú friðlýst og stækkar fólkvangurinn um 1,4 hektara til austurs með friðlýsingunni.

Markmið friðlýsingarinnar er að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota. Fjaran og aðliggjandi sjávarsvæði eru sérstaklega áhugaverð til náttúruskoðunar svo sem fugla- og fjöruskoðunar, en meðal tegunda sem finnast innan fólkvangsins eru margæs, æðarfugl, rauðbrystingur, sendlingur og tildra. Aðgengi að svæðinu er gott og því er það sérstaklega ákjósanlegt til útikennslu. Með stækkuninni er landsvæði þar sem áður var gert ráð fyrir byggingarlóðum orðið hluti fólkvangsins.

Skipulagsuppdráttur sem sýnir Hlið á Álftanesi Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar, Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Gunnar Einarsson,

Uppbygging á Hliði

Í bæjarhúsunum á Hliði hefur verið uppbygging ferðaþjónusta frá aldamótum og þar hafa m.a. verið byggð hús í torfbæjarstíl. Húsin þar eru þó utan fólkvangs en í tengslum við uppbyggingaráform á staðnum var ráðist í fornleifarannsókn í námunda við bæjarhúsin og skv. aðalskipulagi og deiliskipulagi er gert ráð fyrir ferðaþjónustu á staðnum.
Á Hliði hafa verið miklar landbreytingar í gegnum tíðina af völdum sjávargangs, áður var heilmikill tangi sunnan við Hlið sem sést enn móta fyrir á fjöru. Þar eru miklar minjar um sjósókn þar sem m.a. mótar fyrir vörum í fjörugrjótinu.

Friðlýsingar í Garðabæ

Í aðalskipulagi Garðabæjar er kveðið á um að Garðabær verði í fararbroddi bæjarfélaga við verndun umhverfis og náttúru og markvisst hefur verið unnið að því á undanförnum árum að stuðla að friðlýsingum innan bæjarlandsins. Gert er ráð fyrir að allt að 40% af landi Garðabæjar verði friðlýst í framtíðinni gangi öll áform eftir um friðlýsingar.

Fridlysingar.is

Ný hugsun – ný nálgun er yfirskrift átaks í friðlýsingum sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið vinnur að í samstarfi við Umhverfisstofnun. Um leið og friðlýsingin í Hliði fór fram var opnað nýtt vefsvæði átaksins á slóðinni fridlysingar.is. Á vefsvæðinu er að finna almennar upplýsingar um friðlýsingar auk upplýsinga um fjölbreytt verkefni átaksins.
Ný hugsun – ný nálgun á fridlysingar.is