Farsæld barna í Garðabæ
Meginmarkmið farsældarlaganna er að auðvelda börnum og foreldrum að sækja aðstoð við hæfi.
Á Íslandi hafa ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna tekið gildi. Meginmarkmið farsældarlaganna er að börn og foreldrar sem á þurfa að halda hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana.
Farsæld: Með farsæld er átt við aðstæður sem skapa barni skilyrði til að ná líkamlegum, sálrænum, vitsmunalegum, siðferðislegum og félagslegum þroska og heilsu á eigin forsendum til framtíðar.
Öll börn eiga rétt á að fá þá þjónustu sem þau þurfa þegar á þarf að halda en það getur verið flókið að fá aðstoð við hæfi og vita hvert eigi að leita eftir henni. Með nýjum farsældarlögum á að tryggja að börn og foreldrar fái skipulagða og samfellda aðstoð um leið og þörf krefur.
Á vef Garðabæjar má finna nánari upplýsingar um farsældarlögin ásamt upplýsingum um tengiliði bæjarins sem aðstoða við að sækja þjónustu við hæfi. Einnig má þar finna slóðir á gagnlegt ítarefni um farsældarlögin.