15. jún. 2020

Fundur almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins (AHS) um COVID-19

Almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins (AHS) fundaði föstudaginn 12. júní sl. og fór yfir þær aðgerðir sem neyðarstjórnir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu stóðu fyrir á COVID-19 tímanum í vetur.

  • Fundur almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins
    Fundur almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins

Almannavarnarnefnd höfuðborgarsvæðisins (AHS) fundaði föstudaginn 12. júní sl. og fór yfir þær aðgerðir sem neyðarstjórnir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu stóðu fyrir á COVID-19 tímanum í vetur.  Í almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins sitja fulltrúar frá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og auk þess borgarstjóri og bæjarstjórar sveitarfélaganna. Einnig á lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fulltrúa í AHS.  Slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins er framkvæmdastjóri almannavarnanefndarinnar.  Viðstaddir á fundi AHS sl. föstudag voru auk þess fulltrúar í neyðarstjórnum sveitarfélaga og kjörnir fulltrúar sveitarfélaganna.

Frá óvissustigi yfir á hættustig og neyðarstig

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkurborgar sem jafnframt er formaður almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins setti fundinn og rakti atburðarásina í stuttu máli. Þann 31. janúar sl. fundaði almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins með sóttvarnalækni þar sem fjallað var um hina nýju kórónuveiru. Skilaboðin eftir þann fund voru að hvetja sveitarfélög til að kalla saman neyðarstjórnir sínar, virkja viðbragðsáætlanir og horfa til áætlunar um heimsfaraldur inflúensu. Einnig var hvatt til að búa alla starfsemi sveitarfélaga undir það að færast af óvissustigi yfir á hættustig. 

Hættustigi var lýst yfir þann 28. febrúar sl. þegar fyrsta smit greindist á landinu og hækkað var upp í neyðarstig þann 6. mars sl. og var landið því í 80 daga á neyðarstigi. Á þeim tíma fundaði AHS þrisvar sinnum og almannavarnaráð AHS 9 sinnum. Sveitarfélögin og neyðarstjórnir þeirra nýttu tímann frá fundinum í janúar og fram að fyrsta smiti mjög vel til að undirbúa sig sem best og unnu þau þétt saman við að leysa ótrúleg og flókin verkefni sem upp komu á öllu þessu tímabili í vetur. Unnið var eftir nokkrum áætlunum bæði landsáætlunum sem og sértækum viðbragðsáætlunum.  

Áfram á varðbergi

Þórólfur Guðnasson sóttvarnarlæknir fór yfir þær áskoranir sem við stóðum frammi fyrir sem þjóð og þau verkefni sem eru óleyst í dag eins og opnun landamæranna. Engin reynsla er um þá afléttingu sem þarf að fara fram á landamærum í heiminum í dag. Út frá smitsjúkdómum þá var ótrúlegt hvað faraldurinn fór hratt af stað hér hjá okkur og hvað hann hrundi hratt niður. Hann ítrekaði mikilvægi þess að við tryggðum þann árangur sem við höfum náð og við verðum að vera á varðbergi varðandi það að fá ný smit inn í landið. 

Stærsta verkefni almannavarna

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði að verkefnið hafi verið stærsta verkefni almannavarna á Íslandi þar sem allt landið var undir í einu sem og allur heimurinn. Við höfum staðið frammi fyrir heilbrigðismáli af óþekktri stærð og að samfélagsleg áhrif væru gríðarleg. Hann var þakklátur framlagi starfsmanna sveitarfélaga á þessum tímum. Hann þakkaði einnig fyrir allt það fagfólk sem lagðist á árarnar til að leysa þau verkefni sem upp komu, það væri mikilvægt í krísum að vera með valddreifingu byggða á sérfræðiþekkingu.

Mikilvægi neyðarstjórna og samvinna sveitarfélaga

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri og framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins áréttaði að það hafi verið mikil gæfa hversu snemma neyðarstjórnir voru kallaðar saman. Því um leið og sú vinna hófst þá var það hlutverk starfsfólks AHS að aðstoða og styðja við neyðarstjórnirnar sem leiddu starfið allan tímann hvert í sínu sveitarfélagi og féll aldrei skuggi á samstarf og samræmingu þeirra á milli. 

Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs Garðabæjar, sagði í örstuttu máli frá reynslu Garðabæjar á þessum tíma og hversu miklu máli skipti að veita góðar upplýsingar til íbúa og annarra um stöðu mála.  Einnig fór hún yfir þá þekkingu sem hefur orðið til í samfélaginu undanfarna mánuði við fjarfundi og aðra tækni sem væri hægt að nýta til að fylgja eftir stafrænni þróun í Garðabæ sem og víðar. Fulltrúar annarra sveitarfélaga á svæðinu tóku einnig til máls á fundinum og var rauði þráðurinn í þeirra máli ánægja með upplýsingamiðlun á þessum tíma.

Áslaug Hulda Jónsdótir, formaður bæjarráðs Garðabæjar

Samhugur var um mikilvægi neyðarstjórna og að það hafi verið grundvallaratriði hversu fljótt þær voru virkjaðar.

Sjá einnig nánar um fund almannavarna höfuðborgarsvæðisins í frétt á vef SHS.  

Upplýsingar um COVID-19 og áhrif á þjónustu Garðabæjar.