29. mar. 2019

Fyrsta Svansvottaða fjölbýlishúsið á Íslandi í Urriðaholti

Urriðaholtsstræti 10-12 í Urriðaholtshverfi í Garðabæ er fyrsta fjölbýlishúsið sem fær Svansvottun Umhverfisstofnunar hér á landi.

  • Jón Pálmason, Sigurður Gísli Pálmason og Guðmundur Ingi Guðbrandsson
    Jón Pálmason, Sigurður Gísli Pálmason og Guðmundur Ingi Guðbrandsson

Urriðaholtsstræti 10-12 í Urriðaholtshverfi í Garðabæ er fyrsta fjölbýlishúsið sem fær Svansvottun Umhverfisstofnunar hér á landi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, afhenti viðurkenningarskjal þess efnis föstudaginn 22. mars sl.. til eigenda hússins, bræðranna Jóns og Sigurðar Gísla Pálmasona. Við athöfnina bauð Jón Pálmi Guðmundsson, framkvæmdastjóri Urriðaholts ehf, gesti velkomna og sagði frá verkefninu. Einnig tók til máls Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og lýsti yfir ánægju með hvernig til hefði tekist með bygginguna og þann metnað sem hefur verið í umhverfismálum fyrir Urriðaholtið í heild sinni.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra

Smáíbúðahús

Fjölbýlishúsið að Urriðaholtsstræti er smáíbúðahús með 34 íbúðum á stærðarbilinu 25-65 fermetrar. Helmingur íbúðanna er leigður til starfsmanna IKEA í Kauptúni og hinar eru á almennum leigumarkaði.
Við hönnun hússins að Urriðaholtsstræti var áhersla lögð á að stuðla að betri hljóðvist og þar af leiðandi að betri innivist fyrir íbúa. Tekin voru skref til að minnka þörfina fyrir steypu, en framleiðsla sements hefur mikil umhverfisáhrif í för með sér. Einnig voru notaðar vistvænar lausnir fyrir íbúa, þar má nefna handbók fyrir húsið þar sem vistvænum áherslum í rekstri byggingarinnar er komið á framfæri við íbúa hússins og þeir hvattir til þess að taka þátt. Áhersla var lögð á vistvænar samgöngur og settur upp viðgerðarstandur fyrir hjólreiðafólk og hleðslustöðvar fyrir rafbíla verða á bílastæði.

Handbók hússins má nálgast hér á vef smáíbúðahússins.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Sigurður Gísli Pálmason

Fyrsta Svansvottaða fjölbýlishúsið á Íslandi

Urriðaholtsstræti 10-12, fyrsta Svansvottaða fjölbýlishúsið

Vistvænar áherslur í uppbyggingu Urriðaholts

Í Urriðaholti hafa vistvænar áherslur verið leiðarstef í uppbyggingu hverfisins frá upphafi. Urriðaholt er fyrsta og eina hverfið á Íslandi til að fá vistvottun skipulags (BREEAM Communities) og fyrsta Svansvottaða einbýlishúsið hér á landi er einnig í Urriðaholti, en það fékk Svansvottun í lok árs 2017.
Hér má sjá upplýsingar um Urriðaholt.

Svansvottun

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Tilgangur Svansvottunar er að draga úr umhverfisáhrifum bygginga, sporna við hnattrænni hlýnun, vernda heilsu þeirra sem koma að á framkvæmdartíma og þeirra sem dvelja í húsnæði sem hlotið hefur vottun.

Sjá einnig nánari upplýsingar og myndir í frétt á vef Urriðaholts.