3. jún. 2021

Garðabær fékk styrk úr Barnamenningarsjóði

Garðabær fékk 4 milljóna króna styrk úr Barnamenningarsjóði sem veitt var úr í þriðja sinn þann 28. maí sl. Verkefni Garðabæjar sem hlaut styrk nefnist ,,Við langeldinn / Við eldhúsborðið“ og er þar vísun í landnámsskálann á Hofsstöðum.

  • Úthlutun úr Barnamenningarsjóði
    Úthlutun úr Barnamenningarsjóði

Garðabær fékk 4 milljóna króna styrk úr Barnamenningarsjóði sem veitt var úr í þriðja sinn þann 28. maí sl. Verkefni Garðabæjar sem hlaut styrk nefnist ,,Við langeldinn / Við eldhúsborðið“ og er þar vísun í landnámsskálann á Hofsstöðum.  Í minjagarðinum á Hofsstöðum má finna minjar af næst stærsta landnámsskála sem hefur fundist á Íslandi. Samstarfsaðilar í verkefninu eru Hönnunarsafn Íslands og Bókasafn Garðabæjar, en bæði söfnin eru staðsett í miðbæ Garðabæjar, skammt frá Hofsstöðum. Í verkefninu er gert ráð fyrir fjölbreyttum smiðjum þar sem börn velta fyrir sér lífinu á landnámsöld út frá fornleifafræði, arkitektúr, bókmenntum, myndlist og handverki. Þau skoða hvað er líkt og hvað ólíkt með lífi barna í samtímanum og á landnámsöld.

Barnamenningarsjóður úthlutaði styrkjum til 37 verkefna

Ólöf Breiðfjörð, menningarfulltrúi Garðabæjar, Þóra Sigurbjörnsdóttir sérfræðingur hjá Hönnunarsafni Íslands og Margrét Sigurgeirsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Garðabæjar tóku við styrknum við hátíðlega athöfn í Hörpu föstudaginn 28. maí sl.

Alls fengu 37 verkefni styrk og nemur heildarfjárhæð styrkjanna 90 milljónum króna en alls bárust 113 umsóknir. Barnamenningarsjóður var stofnaður í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands. Hlutverk sjóðsins er að fjármagna og styðja við fjölbreytta starfsemi á sviði barnamenningar með áherslu á sköpun, listir og virka þátttöku barna í menningarlífi.

Sjá nánar um úthlutun úr Barnamenningarsjóði í frétt á vef Stjórnarráðsins og í frétt á vef Rannís.