Garðabær gerir samstarfssamning við Tennisfélag Garðabæjar
Garðabær hefur gert samstarfssamning við Tennisfélag Garðabæjar. Meginmarkmiðið er að efla áfram barna- og unglingastarf í tennis í bænum.
-
Almar Guðmundsson bæjarstjóri, Eyþór Rafn Þórhallsson formaður TFG og Hrannar Bragi Eyjólfsson form ÍTG.
Garðabær og Tennisfélag Garðabæjar hafa skrifað undir samstarfssamning með það að markmiði að efla áfram barna- og unglingastarf í tennis í Garðabæ með markvissu starfi TFG á félagssvæði sínu. Sérstök áhersla skal lögð á að mæta þörfum fatlaðra barna og ungmenna í samræmi við stefnu Garðabæjar í málefnum fatlaðs fólks.
Í samningnum segir m.a. að aðalstjórn beri ábyrgð á að félagið og allar deildir þess kynni sér, innleiði og starfi samkvæmt leiðbeiningum og verklagsreglum ÍSÍ um kynferðislegt áreiti í íþróttum. Félagið skal setja upp áætlanir varðandi eineltismál og njóta samvinnu við Garðabæ um fræðslu og viðbrögð við þeim. Þar skal byggt á forvarnastefnu bæjarins þar sem m.a. kemur fram áhersla á að uppræta og vinna gegn einelti, finna fyrirbyggjandi lausnir og auka samvinnu allra uppeldisaðila til að uppræta einelti í skólum og félagsstarfi í Garðabæ.