31. okt. 2023

Garðabær hlaut verðlaun Jafnvægisvogarinnar

Konur eru 75% af starfsmannahópi Garðabæjar og bærinn leggur áherslu á mikilvægi þess að störf þeirra séu metin að verðleikum.

Frú Eliza Reid afhenti Almari Guðmundssyni, bæjarstjóra viðurkenningu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnulífinu FKA en hana hljóta þátttakendur í verkefninu sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum. 60% stjórnenda hjá Garðabæ eru konur.

56 fyrirtæki, 11 sveitarfélög og 22 opinberir aðilar hljóta viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefnis Félags kvenna í atvinnulífinu. Að hreyfiaflsverkefninu standa auk FKA, forsætisráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, Pipar\TBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá. Markmið Jafnvægisvogarinnar er að auka jafnvægi kynjanna í efstu lögum skipulagsheilda og að virkja íslenskt viðskiptalíf til að verða að fyrirmynd jafnréttis.

Konur eru 75% af starfsmannahópi Garðabæjar og bærinn leggur áherslu á mikilvægi þess að störf þeirra séu metin að verðleikum. Hefur bæjarfélagið innleitt jafnlaunastefnu og fengið jafnlaunavottun til að tryggja að svo sé. Skráð er í jafnlaunakerfi Garðabær að greiða beri jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf óháð kyni eða öðrum ómálefnalegum þáttum og er mat vottunaraðila á kerfinu að svo sé.

Jafnréttislundur

Verkefnið blómstrar í Garðabæ, en Jafnréttislundur FKA er staðsettur við aðalinnganginn í Heiðmörk, Vífilsstaðamegin. Þar hafa verið og verða gróðursettar fjölbreyttar tegundir af trjám sem tákn um þann fjölbreytileika sem Jafnvægisvogin er að stuðla að. Í ár verða gróðursett 89 tré eitt fyrir hvern viðurkenningarhafa árið 2023 og verður þá búið að setja niður samtals 262 tré í Jafnréttislundinum á síðustu 4 árum. Það er markmið Jafnvægisvogarinnar að endurtaka þetta árlega og væri ánægjulegt að sjá hlíðina fyllast á næstu árum, með auknu jafnrétti.