5. júl. 2022

Garðabær í samstarf við Samtökin ‘78

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti á fundi sínum í dag, 5. júlí að ganga til viðræðna við Samtökin ‘78 um samstarfssamning.

  • Bæjarfulltrúar byrjuðu að mála regnbogalitina fyrir framan Garðatorg í morgun.
    Eftir að fundi bæjarráðs lauk í morgun tóku bæjarfulltrúar sig til og máluðu regnbogalitina á gangstéttina fyrir utan Garðatorg 7. Litirnir voru upphaflega málaðir árið 2020 en kominn var tími á að hressa upp á þá.

Bæjarráð Garðabæjar samþykkti á fundi sínum í dag, 5. júlí að ganga til viðræðna við Samtökin ‘78 um samstarfssamning. Markmiðið með slíkum samning er að stórefla hinsegin fræðslu og meðvitund um hinsegin málefni í sveitarfélaginu en á sama tíma að styðja við það fræðslustarf um hinsegin málefni sem nú þegar er unnið á vinnustöðum og skólum Garðabæjar. Jafnframt verði horft til gildandi jafnréttisstefnu bæjarins og metið hvort og þá að hvaða leyti hún geti ýtt betur undir fjölbreytileika og styrkt stöðu hinsegin fólks og annarra hópa sem geta átt undir högg að sækja stöðu sinnar vegna.

Tillagan um samstarfssamning sem lögð var fram í bæjarráði var gerð í samstarfi allra flokka. Þar kemur fram að Garðabær standi með hinsegin fólki og baráttu þeirra fyrir mannréttindum og mikilvægt sé að sveitarfélagið sýni stuðning sinn í verki. Það sé samfélaginu öllu mikilvægt að mannréttindi og virðing fyrir fjölbreytileika mannlífsins sé í hávegum höfð. Þá sé Garðabær barnvænt sveitarfélag og vinni að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Aukin meðvitund um hinsegin málefni í sveitarfélaginu sé mikilvægur þáttur í þeirri vinnu.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar segir um mikilvægt skref að ræða. „Það hefur verið vel haldið utan um fræðslu um hinsegin málefni í Garðabæ og starfsfólk okkar sýnt metnað í henni. En nú viljum við stíga skrefinu lengra og nýta samstarf við Samtökin´78 til að þróa fræðslu og umræðu um fjölbreytileika mannlífsins áfram. Við munum skýra nánar frá vinnu við samninginn og útfærslum á næstu vikum,“ segir Almar.

Bæjarfulltrúarnir Þorbjörg Þorvaldsdóttir, Sara Dögg Svanhildardóttir, Brynja Dan Gunnarsdóttir og Guðfinnur Sigurvinsson eru sammála um hversu þarft það er að efla hinsegin fræðslu og meðvitund. „Garðabær er með þessari mikilvægu ákvörðun að taka stórt skref í mannréttindamálum og sýnir stuðning við hinsegin fólk í verki. Hinsegin fræðsla og aukin meðvitund um hinsegin málefni mun stuðla að opnara og frjálsara samfélagi þar sem öll fá að tilheyra.“