20. nóv. 2025

Garðabær orðið Barnvænt sveitarfélag

Gleðin var við völd í Sveinatungu á Garðatorgi þegar UNICEF á Íslandi veitti Garðabæ formlega viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag og þar með markast stór tímamót.

  • Garðabær orðið Barnvænt sveitarfélag
    Gleðin var við völd í Sveinatungu á Garðatorgi þegar UNICEF á Íslandi veitti Garðabæ formlega viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag og þar með markast stór tímamót.

Garðabær er formlega orðið Barnvænt sveitarfélag og ungmennaráð bæjarins bauð í veislu í tilefni þess.

Garðabær hefur frá haustinu 2020 unnið markvisst að því að innleiða Barnasáttmálann í alla sína starfsemi með það að leiðarljósi að verða formlega Barnvænt samfélag. Nú hefur þeim áfanga verið náð og stóð ungmennaráð Garðabæjar fyrir móttöku í Sveinatungu í tilefni þess. Freyja Huginsdóttir, varaformaður ungmennaráðsins, bauð gesti velkomna og undirstrikaði mikilvægi þess að ungt fólk fái tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið.

_IMG_3323

_IMG_3285

Freyja Huginsdóttir, varavormaður ungmennaráðs Garðabæjar, stýrði dagskránni.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, afhenti svo fulltrúum ungmennaráðs viðurkenninguna við mikinn fögnuð viðstaddra. „UNICEF á Íslandi fagnar því að Garðabær hafi bæst í hóp Barnvænna sveitarfélaga. Starfsfólk, kjörnir fulltrúar og ungmennaráð sveitarfélagsins eiga mikið hrós skilið fyrir framlag sitt til verkefnisins sem hefur verið réttindum barna til framdráttar. UNICEF hvetur sveitarfélagið til þess að halda áfram á sömu braut og tryggja að áherslan á raddir og réttindi barna fái áframhaldandi hljómgrunn innan sveitarfélagsins. UNICEF óskar íbúum Garðabæjar, börnum jafnt sem fullorðnum, til hamingju með áfangann og hlakkar til frekara samstarfs.“

_IMG_3302

Guðmundur Ingi Kristinsson, barna- og menntamálaráðherra, tók einnig til máls og óskaði Garðabæ innilega til hamingju með áfangann. Hann sagði mikilvægt að raddir barna fái hljómgrunn þegar ákvarðanir sem snerta líf þeirra séu teknar vegna þess að þau séu sérfræðingarnir í sínu eigin lífi. 

_IMG_3339

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, sagði nokkur vel valin orð við tilefnið.

„Það er einstaklega ánægjulegt að Garðabær sé nú formlega orðið Barnvænt sveitarfélag, eftir metnaðarfullt innleiðingarferli með UNICEF á Íslandi. Með þessari viðurkenningu undirstrikum við það að réttindi og raddir ungu kynslóðarinnar skipta okkur máli. Garðabær mun áfram leitast eftir að veita barnvæna þjónustu og taka mið af hagsmunum unga fólksins okkar – nú með þessa dýrmætu viðurkenningu sem Barnvænt sveitarfélag í farteskinu.“

IMG_3353

Elijah Kristinn Tindsson frá félagsmiðstöðinni Garðalundi og Birta Dís Gunnarsdóttir fluttu sitt hvort tónlistaratriðið. Elijah söng lagið Goddess eftir Laufeyju og Birta Dís söng eigið lag, Fljúgðu burt. 

_IMG_3288

_IMG_3368

_IMG_3336

Emilía Ósk Hauksdóttir, formaður ungmennaráðs, hélt erindi þar sem hún m.a. minnti á mikilvægi þess að börn og ungmenni fái að taka virkan þátt í mótun nærsamfélags síns.

_IMG_3378

_IMG_3282

Markvisst unnið að því að uppfylla réttindi barna

Hugmyndafræði Barnvænna sveitarfélaga byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities, en það hefur verið innleitt í hundruðum sveitarfélaga um allan heim. Barnvæn sveitarfélög vinna markvisst að því að uppfylla réttindi barna og UNICEF á Íslandi styður sveitarfélögin í innleiðingu sinni á Barnasáttmálanum.

Í október 2020 var undirritaður samningur um að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Garðabæ og verða þannig hluti af verkefninu Barnvæn sveitarfélög. Verkefni um Barnvæn sveitarfélög hefur verið leitt hér á landi af UNICEF í samstarfi við nú mennta- og barnamálaráðuneytið og sveitarfélög sem taka þátt.