15. feb. 2024

Garðabær skorar hátt í þjónustukönnun Gallup

 Lækkun á milli ára helst í hendur við auknar áskoranir 

Á heildina litið eru íbúar Garðabæjar ánægðastir með sveitarfélagið sem stað til að búa á, þetta kemur fram í nýrri þjónustukönnun Gallup. Garðabær er talsvert yfir meðaltali sveitarfélaga í flest öllum liðum. 

Mest er ánægja Garðbæinga með umhverfi Garðabæjar og aðstöðu til íþróttaiðkunar sem og þjónustu sveitarfélagsins í heild. 

Markmið könnunarinnar er að kanna ánægju með þjónustu 20 stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð þar ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum.

„Niðurstaðan er afskaplega góð og við gætum sagst vel við una, en ég tel að við getum gert enn betur. Af niðurstöðum sést vel að þau sem hafa nýtt sér þjónustu bæjarins segjast vera ánægðari heldur en þau sem ekki hafa nýtt hana. Það er ánægjulegt, enda skiptir upplifun notenda miklu,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar.

„Við höfum verið að glíma við flókin verkefni á undanförnum misserum, svo sem rakaskemmdir og myglu í skólahúsnæði, breytingar á leikskólakerfinu okkar og svo höfum við verið að gera breytingar á sorphirðu sem hefur verið áskorun fyrir okkur og fyrir íbúana. Þetta eru allt áskoranir sem við höfum lært mikið af og höfum tekið athugasemdir bæjarbúa til okkar. Ég legg áherslu á að við rýnum þessar niðurstöður vel og eins og alltaf, reynum við að gera enn betur.“


Mikil ánægja er með heildarþjónustu bæjarins og er Garðabær þar efstur meðal sveitarfélaganna. Sama má segja um gæði umhverfisins í Garðabæ að mati íbúa, en þar erum við einnig í fremstu röð. Af stærri sveitarfélögum eru íbúar Garðabæjar ánægðastir með skipulagsmál bæjarins, þjónustu grunnskóla, og hvernig sveitarfélagið leysir úr erindum sem þeim er sent. Út frá niðurstöðunum er áfram tækifæri til úrbóta í þjónustu við fatlað fólk, en notendur þjónustunnar eru áfram ánægðari en þau sem ekki hafa nýtt sér þjónustuna.

Niðurstöður fyrir Garðabæ úr þjónustukönnuninni eru aðgengilegar á vef Garðabæjar og þar má jafnframt sjá niðurstöður til samanburðar úr eldri könnunum.

Könnunin var framkvæmd frá 14. nóvember 2023 –11. janúar 2024 og var lögð fram til kynningar í bæjarráði Garðabæjar þriðjudaginn 6. febrúar. 

Niðurstöður og einstakir þættir könnunarinnar verða lagir fyrir nefndir bæjarins og verða skoðaðir hjá sviðum bæjarins með það fyrir augum að kanna með hvaða hætti Garðabær geti haldið áfram að bæta þjónustu sína.