26. feb. 2019

Garðabær tók gullið

Bæjarfulltrúar Garðabæjar tóku gullið í fyrsta sinn á árlegu þorramóti íþróttafélagsins Fjarðar í boccia laugardaginn 23. febrúar sl.

  • Frá vinstri: Björg Fenger, Áslaug Hulda Jónsdóttir og Ingvar Arnarson
    Frá vinstri: Björg Fenger, Áslaug Hulda Jónsdóttir og Ingvar Arnarson

Bæjarfulltrúar Garðabæjar tóku gullið í fyrsta sinn á árlegu þorramóti íþróttafélagsins Fjarðar í boccia laugardaginn 23. febrúar sl.  Það voru þau Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður bæjarráðs Garðabæjar, Björg Fenger formaður íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar og Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi sem tóku þátt fyrir hönd Garðabæjar.  

Íþróttafélagið Fjörður sinnir þörfum þeirra sem eru andlega og/eða líkamlega fatlaðir og er með aðsetur í Hafnarfirði.  Bæði börn og fullorðnir úr Hafnarfirði sem og annars staðar frá, m.a. Garðabæ, stunda þar íþróttir og þá sérstaklega sund og boccia. 

Árlegt þorramót Fjarðar í boccia

Fulltrúar bæjarstjórnar Garðabæjar hafa tekið þátt í árlegu þorramóti Fjarðar í boccia á undanförnum árum.  Í ár mættu þau til leiks með góðum árangri og náðu gullinu eins og kemur fram hér að ofan en rétt er að geta þess að fulltrúar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar sem tóku einnig þátt komust ekki einu sinni í úrslit í þetta sinn!  Í öðru sæti á mótinu voru fulltrúar frá ÍBH (Íþróttabandalagi Hafnarfjarðar), stjórn Fjarðar lenti í þriðja sæti og í 4. sæti varð C sveit Fjarðar.   

Á fésbókarsíðu íþróttafélagsins Fjarðar má sjá skemmtilegar myndir frá mótinu um síðastliðna helgi og á vef íþróttafélagsins Fjarðar eru líka upplýsingar um starf félagsins.