14. nóv. 2019

Garðálfarnir sigruðu LEGO- hönnunarkeppni

Garðálfarnir úr Garðaskóla báru sigur úr býtum í hinni árlegu tækni- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League sem fram fór í Háskólabíói laugardaginn 9. nóvember sl. Liðið tryggði sér um leið þátttökurétt í Norðurlandakeppni FIRST LEGO League sem fram fer í Hróarskeldu í Danmörku í lok nóvember.

  • Garðálfarnir - vinningslið úr Garðaskóla
    Garðálfarnir - vinningslið úr Garðaskóla

Garðálfarnir úr Garðaskóla báru sigur úr býtum í hinni árlegu tækni- og hönnunarkeppni FIRST LEGO League sem fram fór í Háskólabíói laugardaginn 9. nóvember sl. Liðið tryggði sér um leið þátttökurétt í Norðurlandakeppni FIRST LEGO League sem fram fer í Hróarskeldu í Danmörku í lok nóvember.

Keppnin er haldin í nánu samstarfi við grunnskóla landsins og hefur verið fastur viðburður um árabil. Alls tóku 16 lið úr grunnskólum hvaðanæva af landinu þátt að þessu sinni. Þátttakendur voru um 140 á aldrinum 10-16 ára en fjöldi leiðbeinenda hefur unnið með þeim baki brotni allt síðan í ágúst við undirbúning fyrir þátttöku í keppninni.

Lið Garðálfana skipa þau Baldur Ingi Pétursson, Bjarni Hrafnkelsson, Hrafndís Kristmundsdóttir, Jón Arnar Hjálmarsson, Rytis Kazakevicius, Sæbjörn Hilmir Garðarsson og Tinna Maren Þórisdóttir.

Kennari og þjálfari liðsins er Ragnheiður Stephensen stærðfræðikennari. Þetta er í annað sinn sem hún stýrir liði Garðaskóla til sigurs í keppninni en lið Garðaskóla sigraði líka keppnina árið 2017.

Ár hvert er keppninni valið tiltekið þema og að þessu sinni var það borgarhönnun (e. city shaper). Þar fengust keppendu m.a. við spurninguna: „Ef það væri í þínum höndum að byggja betri heim, hvernig yrði hann?“

Þátttakendur sýndu einstaka hugvitssemi, þekkingu og hæfni í fjölbreyttum og afar áhugaverðum lausnum í öllum keppnisgreinum, jafnt forritun og hönnun LEGO-þjarka sem og rannsóknarverkefni og lausnum á flóknum viðfangsefnum af margvíslegu tagi.

Að auki voru veitt verðlaun fyrir bestan árangur í einstökum hlutum keppninnar. Þar hlutu Garðálfarnir einnig verðlaun fyrir liðsheild.

Fleiri myndir frá keppninni má nálgast á myndavef Háskólans.