Garðatorg í nýju og litríku ljósi
Nú er hægt stýra lýsingunni á göngugötunni á Garðatorgi í takt við viðburði, tilefni og tíma dags.
Ný lýsing hefur nú verið sett upp á göngugötunni á Garðatorgi og býður hún upp á ýmsa skemmtilega möguleika. Hægt er að breyta um lit á lýsingunni í takt við viðburði, tilefni eða tíma dags. Markmiðið með lýsingunni er að styrkja rýmið sem samkomustað þar sem lýsingin hefur óneitanlega mikil áhrif á stemningu og upplifun gesta. Lýsingarhönnuðir eru Liska.
Ólöf Breiðfjörð, menningarfulltrúi, er lýsingastjóri á Garðatorgi.
„Þetta gerir okkur kleift að taka sýnilega þátt í hátíðum og allskonar vitundavakningu í þjóðfélaginu svo sem bleikum október,“ segir Ólöf spurð út í möguleikana sem koma með nýju lýsingunni.
„Það eykur ýmsa möguleika að geta stýrt lýsingu og leikið sér með liti, til dæmis á listahátíðinni Rökkvunni sem fer fram á haustin. Þá getum við leikið okkur með litaþemu og stemningu en þetta hefur ekki aðeins í för með sér stemningu innan glerhjúpsins heldur gerir hann sýnilegri utan frá sem er kostur,“ útskýrir Ólöf.
Í dagsbirtu fellur ljós í gegnum litaðar filmur sem skapa skemmtilega stemningu .Filmurnar hafa þann eiginleika að litur ljóssins breytist eftir því hvaða gráðu sólargeislarnir lenda á filmunum. Þegar rökkva tekur teiknar raflýsing upp gleryfirbygginguna.
Ótal spennandi menningarviðburðir eru haldnir í Garðabæ ár hvert og þá kemur sér vel að geta breytt lýsingunni í takti við þemað hverju sinni.
„Við munum njóta þess að vera sýnilegri á Safnanótt en litirnir grænn og fjólublár eru allsráðandi og þar með verður sýnilegra að það sé eitthvað um að vera á Garðatorgi en bæði Hönnunarsafnið og Bókasafnið taka þátt í Safnanótt. Aðventan verður svo miklu fallegri hjá okkur þegar við getum haft lýsingu í stíl við tilefni.“
Ljósmyndir/ Katerína Blahutova