Garðbæingurinn Arndís fagnaði 100 ára afmæli
Garðbæingurinn Arndís Sigurðardóttir Genualdo fagnaði 100 ára afmæli í gær, þann 21. nóvember. Arndís hélt veislu á Sjálandi í tilefni dagsins.
-
Arndís tók vel á móti Almari bæjarstjóra á notalegu heimili sínu við Norðurbrú á afmælisdaginn.
Garðbæingurinn Arndís Sigurðardóttir Genualdo fagnaði 100 ára afmæli í gær, þann 21. nóvember. Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar kíkti í heimsókn til Arndísar í tilefni dagsins
Arndís fæddist 21. nóvember 1924 á Ísafirði. Fjölskyldan flutti til Reykjavíkur árið 1930 og bjuggu við Vonarstræti 2, þaðan á Arndís góðar æskuminningar. Foreldrar hennar voru Ragna Pétursdóttir húsfreyja og Sigurður Kristjánsson alþingismaður. Arndís er elst af 11 systkinum.
Starfsins vegna þurfti fólk oft að ná tali af Sigurði og þá hikaði hann ekki við að bjóða því heim í mat. Við matarborðið voru stjórnmálin rædd í þaula og farið yfir hin ýmsu sjónarmið. Þá sat Arndís og hlustaði á allt sem fór fram á milli fullorðna fólksins. Þannig kom áhuginn á pólitík snemma.
Arndís fylgist enn þá vel með fréttum og pólitík. Svo er hún mikill lestrarhestur og les bækur á Kindle, hún er með þrjú Kindle lesbretti í notkun, hvorki meira né minna, og lætur sér ekki leiðast.
Arndís var tvígift, fyrri maður hennar var Guðmundur Kjartan Runólfsson. Seinni maður hennar var Lawrence Genualdo og flutti hún með honum til Bandaríkjanna árið 1961. Þar bjó hún í 42 ár áður en hún flutti í Garðabæ.
Arndís eignaðist sjö börn, tvö með Guðmundi og fimm með Lawrence.
Börn hennar eru öll búsett í Bandaríkjunum að Láru Kjartansdóttur undanskilinni sem er elsta barn Arndísar. Lára býr í næstu íbúð við Arndísi og er henni til halds og traust í daglegu lífi.
Kann vel við sig í Garðabæ
Árið 2002 var komið að því að flytja aftur til Íslands og sá Lára um að finna hentuga íbúð fyrir móður sína og sjálfa sig í leiðinni.
Arndís viðurkennir að hún hefði verið hissa að heyra að Lára dóttir hennar hefði fundið sitthvora íbúðina fyrir þær í Garðabæ því hún sá fyrir sér litla sveit. En hún var himinlifandi að sjá hvernig bærinn hafði byggst upp á þeim árum sem hún var úti og kvaðst kunna afar vel við sig í Garðabæ.
Þegar Almar kvaddi var afmælisveisla fram undan á Sjálandi og hlakkaði Arndís til að taka á móti fólkinu sínu á þessum merku tímamótum.
Almar færði Arndísi glæsilegan blómvönd frá Luna studio í tilefni dagsins. T.h. Lára dóttir Arndísar.