Gefandi og skemmtilegt að vinna við að fegra bæinn sinn
Það er gefandi að vinna undir berum himni við það að fegra nærumhverfi sitt segir Vignir Snær Norðdahl, yfirflokkstjóri umhverfishópa. Verkefnin eru alls konar sem gerir starfið lifandi og skemmtilegt.
-
Það er gefandi að vinna undir berum himni við það að fegra nærumhverfi sitt segir Vignir Snær Norðdahl, yfirflokkstjóri umhverfishópa. Verkefnin eru alls konar sem gerir starfið lifandi og skemmtilegt.
Garðabær auglýsir nú fjölbreytt sumarstörf fyrir ungmenni fyrir árið 2025 , þar á meðal eru skemmtileg störf með umhverfishópum bæjarins. Vignir Snær Norðdahl, yfirflokkstjóri umhverfishópa, mælir hiklaust með því að sækja um sumarstarf í umhverfishóp. Hann segir starfið veita ungum Garðbæingum nýja sýn á heimabæ sinn. „Starfið kennir þeim líka mikilvægi samvinnu og ábyrgðar. Og það að vinna úti í fallegu umhverfi og þar sem maður fær að leggja sitt af mörkum til að fegra bæinn er bæði gefandi og hvetjandi. Fyrir marga verður þessi reynsla ógleymanleg,“ segir hann.
Vignir hefur starfað með umhverfishópum Garðabæjar síðastliðin tvö sumur. „Sumarið 2023 var ég aðstoðaryfirflokkstjóri. Þáverandi yfirflokkstjóri var búsettur erlendis og ég fékk þann heiður að vera hans hægri hönd á vinnustað. Sumarið 2024 var svo fyrsta sumarið þar sem ég sá alfarið um umhverfishópana. Nú geng ég inn í sumarið 2025 með dýrmæta reynslu að baki sem mun nýtast mér vel í komandi verkefnum. Ég hlakka mikið til að halda áfram að stýra umhverfishópum og þróa starfið enn frekar,“ segir Vignir.
Takast á við fjölbreytt verkefni
Spurður út í helstu verkefni sem starfsmenn í umhverfishópum fást við segir Vignir: „Meðal helstu verkefna sem umhverfishópar sinna eru umhirða gróðurbeða, málningarvinna, viðhald stíga, þökulagningar og aðstoð við gróðursetningu sumarblóma. Auk þess taka umhverfishópar að sér ýmis önnur tilfallandi verkefni eftir þörfum.“
Það er því greinilega um lifandi og skemmtilegt starf að ræða.
Verkefnin eru alls konar.
„Það besta við að vinna í umhverfishópum er hversu fjölbreytt og gefandi starfið er. Verkefnin eru mismunandi frá degi til dags, sem gerir vinnuna bæði skemmtilega og lærdómsríka. Auk þess skapast oft mjög góð stemning í hópunum þar sem fólk kynnist nýjum einstaklingum og myndar sterk tengsl,“ segir Vignir. Hann hvetur öll áhugasöm um að sækja um starf innan umhverfishópa Garðabæjar, ýmist í stöðu flokkstjóra eða almennra starfsmanna.
„Vonandi taka ungmennin með sér dýrmætan lærdóm og verklega færni sem mun nýtast þeim í framtíðinni, hvort sem er í frekara námi, starfi eða daglegu lífi,“ segir Vignir.