2. okt. 2020

Glaðir skólakrakkar í menningardagskrá

Þessar vikurnar streyma skólahópar í stríðum staumum á menningarviðburði sem eru hluti af menningardagskrá sem hefur verið skipulögð fyrir leik- og grunnskólabörn í Garðabæ.

  • Vinnusmiðja skólabarna á sýningunni 100%ULL í Hönnunarsafninu
    Vinnusmiðja skólabarna á sýningunni 100%ULL í Hönnunarsafninu

Þessar vikurnar streyma skólahópar í stríðum staumum á menningarviðburði sem eru hluti af menningardagskrá sem hefur verið skipulögð fyrir leik- og grunnskólabörn í Garðabæ. Börn á miðstigi grunnskólans hafa heimsótt sýninguna 100% ULL í Hönnunarsafni Íslands og elstu börn leikskóla hafa upplifað tónleikhús í sal Tónlistarskóla Garðabæjar. Í næstu viku bætast svo enn fleiri viðburðir við en þá ætlar Gunnar Helgason að hitta unglinga og ræða um skapandi skrif.

100% ULL - vinnusmiðja í Hönnunarsafninu

Vangaveltur um vinnsluaðferðir ullar, sóun og nýtni eru börnum miðstigs hugleikin þegar þau ganga með safnkennara í gegnum sýningu á gripum úr íslenskri ull í Hönnunarsafninu en þau fá ekki aðeins fræðslu og spjall heldur einnig að taka þátt í að skapa stóran skúlptúr úr greinum og ull. „Það er algjör draumur að fá þessa krakka inn á safnið og nýja smiðjurýmið okkar kemur sér vel núna þegar hóparnir eru ekki bara í leiðsögn heldur líka í smiðju“ segir Sigríður Sigurjónsdóttir forstöðumaður Hönnunarsafns Íslands. Skólahópar munu koma daglega þar til sýningunni lýkur þann 15. nóvember en foreldrar og fjölskyldur nemenda eru hvött til að skoða sýninguna og taka þátt í gerð skúlptúrsins en smiðjurýmið er alltaf opið gestum.  

Tónleikhús í Tónlistarskólanum

Í síðustu viku komu fyrstu leikskólahóparnir í heimsókn í Tónlistarskóla Garðabæjar þar sem Dúó Stemma skemmtir nemendum með leik á allskyns hljóðfæri. Þau Steef Oosterhout og Herdís Anna Jónsdóttir hafa þróað dagskrána og greinilegt að börnin kunnu að meta tónleikhúsið. Næstu tvo föstudaga verða fleiri tónleikar með Dúó Stemmu á dagskrá fyrir leikskólabörn í Garðabæ.

Tónleikhús - Dúó Stemma spilar fyrir leikskólanemendur í sal Tónlistarskóla Garðabæjar