Glæsileg dagskrá Rökkvunnar
Listahátíðin Rökkvan verður haldin laugardaginn 12. október á göngugötunni í Garðabæ. Á hátíðinni fær ungt listafólk tækifæri til að koma fram og flytja tónlist og sýna hönnun, myndlist og handverk. Dagskráin í ár er einstaklega spennandi.
-
Hljómsveitin Dikta kom fram á Rökkvunni í fyrra.
Nú styttist óðfluga í Rökkvuna sem er listahátíð sem fer fram þann 12. október á göngugötunni Garðatorgi. Verkefnastjórar hátíðarinnar eru ungt listafólk sem brennur fyrir menningarmálum bæjarins, þau Einar Magnússon og María Bóel Guðmundsdóttir.
Að sögn hlakka þau mikið til hátíðarinnar og búast við góðri mætingu. Þau segja hátíðina vera mikilvæga fyrir menningarlíf Garðabæjar „Hátíð eins og Rökkvan, þar sem ungt fólk fær að spreyta sig en síðan líka njóta þess að hlusta á reyndari tónlistarmenn, skiptir samfélagið miklu máli og að geta boðið upp á svona flotta dagskrá, fólki að kostnaðarlausu, er ekki sjálfgefið. Garðabær á heiður skilið.“
Tónlist verður í fyrirrúmi á hátíðinni en einnig munu gestir njóta listasýningar í Betrunarhúsinu og verður lista- og handverksmarkaður reistur á torginu. Hátíðin nær hápunkti með tónleikum þar sem Kusk og Óviti, KK, Jói Pé og félagar og GDRN munu stíga á svið.
Fjölskyldudagskrá um miðjan dag
Klukkan 14:00 fer fram tónlistarsmiðja með Ingibjörgu Fríðu og Sigurði Inga sem ber yfirskriftina Klapp, klapp, stapp, stapp! og ætti öll fjölskyldan að hafa gaman af því að taka þátt. Strax að lokinni smiðju leikur Rökkvubandið stuðtónlist eins og þeim einum er lagið. Dagskránni um miðja dag lýkur svo með Stórsveit Tónlistarskóla Garðabæjar sem er alltaf gaman að fylgjast með enda hafa krakkarnir í sveitinni leikið á sín hljóðfæri frá unga aldri.
Svona lítur dagskrá Rökkvu út:
Fjölskyldudagskrá 14:00-16:00
- Klapp, klapp, stapp, stapp! Tónlistarsmiðja með Ingibjörgu Fríðu og Sigurði Inga þar sem líkaminn er notaður sem hljóðfæri. Öll fjölskyldan tekur þátt.
- Stórsveit Tónlistarskóla Garðabæjar leikur af sinni alkunnu snilld.
- Rökkvubandið með stuðdagskrá.
Markaður og listasýning 14:00-23:00
- Prjónavörur, skartgripir, myndlist og fleira áhugavert.
- Myndlistarsýning í Betrunarhúsinu. Íris Eva Magnúsdóttir og Jói Pé
Stórtónleikar 19:30-22:30
- Kusk og Óviti
- KK
- Jói Pé og félagar
- GDRN
Aðgangur á Rökkvuna er ókeypis en hátíðin er á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar. Drykkir verða til sölu um kvöldið og búast má við tilboðum í tilefni Rökkvunnar hjá fyrirtækjum á Garðatorgi.