Glitrandi konudagskaffi á Holtakoti
Krakkarnir á leikskólanum Holtakoti buðu mömmum og ömmum í skemmtilegt morgunkaffi í síðustu viku. Á boðstólnum voru heimabakaðar bollur og kaffi.
„Föstudaginn 28. febrúar tókum við á Holtakoti forskot á bolludagssæluna og buðum mæðrum og ömmum í bolludagskaffi. Tilefnið var auðvitað konudagurinn sem var sunnudaginn 23. febrúar,“ segir starfsfólk Holtakots um konudagskaffið sem haldið var á leikskólanum í síðustu viku.
Börnin buðu gestum sínum upp á heimabakaðar rjómabollur með sultu og súkkulaðiglassúr og kaffi, veitingarnar vökti mikla lukku. Svo voru allir leystir út með gjöfum en börnin voru búin að útbúa gjafir handa gestum sínum. Á elstu deildinni, Hliði, voru börnin búin að teikna myndir sem héngu uppi á vegg af þeim sjálfum, mömmu og ömmu.
Þennan dag var haldið upp á Alþjóðadag sjaldgæfra sjúkdóma víða um heim og að því tilefni hvatti Einstök börn, stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni, landsmenn til að glitra með þeim, þ.e. klæðast einverju glitrandi eða litríku og sýna þannig samstöðu og stuðning í verki með þeim sem lifa með sjaldgæfum sjúkdómum eða heilkennum.
Starfsfólk á Holtakoti lét ekki sitt eftir liggja en keyptu boli til að vekja athygli á málefninu og styrktu þannig í leiðinni félag einstakra barna.
„Þegar allir gestirnir voru búnir að fá nægju sína af bollum, kaffi og dásamlegri samveru og búnir að kveðja hittust börnin og starfsfólkið í sal leikskólans í söngstund. Svo var tákn vikunnar lagt, orðin: meira, byggja, duglegur og leika.“