18. jan. 2019

Góð mæting á íbúafund á Álftanesi

Góð mæting var á íbúafund sem haldinn var miðvikudaginn 16. janúar sl. í hátíðarsal íþróttamiðstöðvarinnar á Álftanesi, þar sem tillögurnar sem nú eru í kynningu fyrir miðsvæðið á Álftanesi voru kynntar. 

  • Íbúafundur á Álftanesi
    Íbúafundur á Álftanesi

Góð mæting var á íbúafund sem haldinn var miðvikudaginn 16. janúar sl. í hátíðarsal íþróttamiðstöðvarinnar á Álftanesi, þar sem tillögurnar sem nú eru í kynningu fyrir miðsvæðið á Álftanesi voru kynntar. 

Tillögurnar eru settar fram í fimm deiliskipulagsáætlunum sem ganga undir nöfnunum Breiðamýri, Krókur, Helguvík, Skógtjörn og Kumlamýri. Í heildina er gert ráð fyrir um 401 nýrri íbúð á svæðinu og var líkan af fyrirhugaðri byggð sýnt á fundinum.

• Breiðamýri – í tillögunni er gert ráð fyrir 270 íbúðum í 9 fjölbýlishúsakjörnum.
• Krókur – í tillögunni er gert ráð fyrir 54 íbúðum í raðhúsum.
• Helguvík – í tillögunni er gert ráð fyrir 23 einbýlishúsum.
• Kumlamýri – í tillögunni er gert ráð fyrir 40 íbúðum í parhúsum.
• Skógtjörn - Í tillögunni er gert ráð fyrir að núverandi byggð við Búðarflöt, Lambhaga, Höfðabraut, Miðskóga, Brekkuskóga, Ásbrekku, Bæjarbrekku, Kirkjubrekku og Tjarnarbrekku verði hluti skipulagssvæðisins ásamt 14 nýjum einbýlis- og parhúsum sunnan við Bæjarbrekku.

Góðar umræður

Góðar umræður sköpuðust á fundinum og fjölmargar spurningar voru lagðar fram að lokinni kynningu. Þórhallur Sigurðsson, arkitekt hjá Andersen & Sigurdsson kynnti tillögurnar og Sigurður Guðmundsson formaður skipulagsnefndar var fundarstjóri. Fyrir svörum voru einnig Þráinn Hauksson landslagsarkitekt hjá Landslagi, Lilja G. Karlsdóttir hjá Viaplan og Sigurður Grétar Sigmarsson frá verkfræðistofunni Verkís.

Frestur til að skila inn ábendingum um tillögurnar rennur út 7. febrúar 2019. Athugasemdir berist á bæjarskrifstofu eða á netfangið skipulag@gardabaer.is

Upptaka af fundinum er aðgengileg á facebook síðu Garðabæjar og kynningin sem sýnd var á fundinum er einnig aðgengileg á vef Garðabæjar.

Íbúafundur á Álftanesi