,,Göngum í skólann" sett í Hofsstaðaskóla
,,Göngum í skólann" átaksverkefnið var sett í Hofsstaðaskóla að morgni miðvikudagsins 4. september sl. að viðstöddum góðum gestum ásamt öllum nemendum á sal skólans.
,,Göngum í skólann" átaksverkefnið var sett í Hofsstaðaskóla að morgni miðvikudagsins 4. september sl. að viðstöddum góðum gestum ásamt öllum nemendum á sal skólans. Hafdís Bára Kristmundsdóttir bauð alla velkomna og því næst flutti Þráinn Hafsteinsson, formaður Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ tók stutt ávarp og stýrði hátíðardagskránni. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra flutti skemmtilegt ávarp þar sem hún kenndi viðstöddum þrjú tákn á táknmáli, göngum, skóli og heim. Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, hvatti börnin til að ganga með vinum sínum og láta sig vita ef það þyrfti að laga eitthvað eða bæta á gönguleiðunum í skólann. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu gaf börnunum góð ráð í umferðinni og Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, hvatti nemendur og gesti til að velja öruggustu leiðirnar í og úr skóla. Kór Hofsstaðaskóla tók lagið ásamt öðrum nemendum skólans og svo mætti trúðurinn Wally á svæðið og skemmti börnunum eins og honum einum er lagið.
Gönguferð og gjörningur
Að lokinni hátíðardagskrá innandyra fóru allir nemendur og gestir í stutta gönguferð í kringum skólann. Utandyra mátti sjá fjölda skópara sem nemendur höfðu komið með í tilefni dagsins og lagt á gangstéttar að skólanum sem nokkurs konar gjörning en allir skórnir sem söfnuðust saman verða gefnir til góðgerðamála.
Fleiri myndir frá deginum eru á vef Hofsstaðaskóla og sjá líka frétt á vef ÍSÍ.
Heilbrigður lífsstíll fyrir alla fjölskylduna
Meginmarkmið ,,Göngum í skólann" verkefnisins er að hvetja börn og fjölskyldur á Íslandi til að ganga, hjóla eða nota annan virkan ferðamáta til og frá skóla, hvetja til aukinnar hreyfingar og fræða börn um ávinning reglulegrar hreyfingar.
Í ár tekur Ísland þátt í 13. skipti í alþjóðlega verkefninu Göngum í skólann. Á alþjóðavísu er Göngum í skólann mánuðurinn í október og Alþjóðlegi Göngum í skólann dagurinn er 2. október. Vegna birtu og veðuraðstæðna fer Göngum í skólann verkefnið fram hér á Íslandi í septembermánuði og því lýkur á alþjóðlega ,,Göngum í skólann deginum" þann 2. október.
Þeir sem að verkefninu standa hérlendis eru Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytið, Embætti landlæknis, ríkislögreglustjóri, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Samgöngustofa og Landssamtökin Heimili og skóli.