Göngum vel um í kringum gámana
Í vorhreinsuninni verður 33 gámum komið fyrir í bænum. Mikilvægt er að aðeins hreinn garðaúrgangur fari í gámana.
Nú styttist í vorhreinsun lóða í Garðabæ sem fer fram dagana 9. til 22. maí í kjölfarið á hreinsunarátaki Garðabæjar sem stendur yfir frá 28. apríl til 12. maí.
Vorhreinsunin verður með sama sniði og í fyrra, þ.e.a.s. 33 gámum verður komið fyrir í bænum sem taka á móti garðaúrgangi sem íbúar koma sjálfir í gámana. Gámarnir fara niður 9. maí og verða tæmdir reglulega á meðan á vorhreinsuninni stendur.
Gámarnir eru opnir á annarri hliðinni svo auðvelt sé að henda í þá. Eldri borgurum og þeim sem þurfa aðstoð við að koma garðaúrgangi í gámana er bent á að hafa samband við þjónustumiðstöð Garðabæjar, sem verður þeim innan handar.
Hérna má nálgast kort sem sýnir staðsetningu gámanna.
Sigurður Hafliðason, forstöðumaður þjónustumiðstöðvar, hvetur íbúa til að taka þátt í vorhreinsuninni og að ganga vel um í kringum gámana. „Ég hvet íbúa til að setja eingöngu garðaúrgang í gámana, ekkert í pokum. Það verður hægt að henda pokum í tunnur sem verða við gámana,“ segir Sigurður.
Það er mikilvægt að setja aðeins hreinan garðaúrgang í gámana. „Við nýtum það sem ratar í gámana í moltugerð sem er svo notuð í bæjarfélaginu. Sorpa tekur við öðrum úrgangi,“ bætir hann við.
Árlegt hreinsunarátak Garðabæjar
Í árlega hreinsunarátakinu, sem er frá 28. apríl til 12. maí, eru nágrannar, íbúasamtök, félagasamtök, íþróttafélög og skólar hvattir til að taka þátt. Hópar geta sótt um að fá úthlutuð svæði til að hreinsa í sínu nærumhverfi og geta fengið styrk í fjáröflunarskyni eða til að halda grillveislu í lok góðrar tiltektar. Áhugasamir hópar geta haft samband við verkefnastjóra garðyrkjudeildar, s. 820 8574, lindajo@gardabaer.is.