3. okt. 2024

Göngustígur frá Hraunhólum að íþróttasvæði lokaður til nóvemberloka

Vegna viðgerðar við hitaveitulögn verður Garðafit lokuð í einn til tvo daga. Áætlað er að göngustígur frá Hraunhólum að íþróttasvæði Garðabæjar verði lokaður til nóvemberloka. 

Vegna endurnýjunar Veitna á hitaveitulögn verður göngustígur í Hvammi frá Hraunhólum að íþróttasvæði Garðabæjar lokaður til nóvemberloka. Unnið verður á grasblett á milli Garðafitjar og göngustígs. Vinnusvæðið má sjá á meðfylgjandi mynd og á vef Veitna. Á myndinni má sjá „göngubrú“ merkta inn, samkvæmt Veitum verður allajafna hægt að fara yfir þá brú á meðan á framkvæmdum stendur.

Í tilkynningu frá Veitum um verkið kemur fram að göngustígurinn sem um ræðir liggur ofan á hitaveitustokk utan um lögn sem gaf sig nýlega og er kominn tími á endurnýjun. Til að tryggja öryggi á svæðinu og afhendingu á heitu vatni þarf að leggja nýja lögn við hlið stokksins.

Hitaveitulögnin flytur heitt vatn m.a. fyrir Ásahverfi og Álftanes. Ítrekaðar bilanir á þessum legg gera það að verkum að það verður að endurnýja hana til lengri tíma. Slík lausn til framtíðar verður þó ekki tilbúin fyrir komandi vetur og því þarf að setja í forgang að leggja lögn sem mun sinna hlutverkinu næstu árin.

Úr tilkynningu frá Veitum:

Til að tryggja öryggi vegfarenda verður göngustígnum lokað allan framkvæmdatímann. Þarna verða stórar vinnuvélar á ferð og til að koma í veg fyrir að börn og aðrir gangandi vegfarendur stytti sér leið um framkvæmdasvæðið verður það afgirt. Stóran hluta verktímans verður hægt að þvera göngustíginn þar sem gatnamót hans eru við hraunið. Verktaki mun hafa afnot af grasbletti við göngustíginn þar sem lagnir og tæki verða geymd.

Loka þarf Garðafit við grasblettinn á meðan verktaki kemur lögnum á athafnasvæðið. Það mun taka einn til tvo daga og á meðan verður gangandi umferð beint á götuna fram hjá svæðinu. Þá þarf að loka til að tryggja öryggi þeirra. Leitast verður við að hafa lokun sem stysta og utan háannatíma.

  • Vinnusvæði: Göngustígur í Hvammi á hitaveitustokk frá Hraunhólum að íþróttasvæði Garðabæjar og grasblettur milli Garðafitjar og göngustígs.
  • Tímaáætlun: Október til loka nóvember 2024.

Nánari upplýsingar á vef Veitna.