2. júl. 2025

Grasslátturinn í fullum gangi

Tveir sláttuhópar frá Garðabæ auk hóps frá Garðlist sjá til þess að opin grassvæði í Garðabæ séu vel slegin, hirt og snyrtileg í sumar.

Vinnan við grasslátt á opnum svæðum í Garðabæ hófst með látum í vor og er nú komin á fullt flug.

„Sláttur á opnum svæðum byrjað með látum í vor þar sem að sumarið kom óvenju snemma til okkar. Garðlist, sem annast grassláttinn fyrir bæinn, var ræst út tíu dögum fyrr en á meðalári og um tíma gekk verkið hægt þar sem að sprettan var orðin svo mikil,“ segir Pétur Bjarnason, sem hefur umsjón með grasslættinum hjá bænum.

Hann segir meira jafnvægi komið á vinnuna núna. „Nú er búið er að ná tökum á erfiðustu svæðunum en þetta verður þrotlaus vinna í allt sumar og mikilvægt að bærinn okkar sé vel sleginn, hirtur og snyrtilegur,“ segir Pétur.

Auk hópa frá Garðlist þá starfa tveir hópar frá Garðabæ við grasslátt í sumar. „Okkar starfsfólk sér um ákveðin svæði bæjarins, t.d. stofnanalóðir bæjarins, íþrótta- og skólasvæðið við Ásgarð, Álftanes að hluta og erfið svæði í kringum lækina,“ segir Pétur.

Tíðni í slætti á opnum svæðum í Garðabæ er 5-7 umferðir yfir sumarið en allt fer það eftir staðsetningu og eðli svæða.

„Áætlað er að slætti ljúki um mánaðarmótin ágúst/september eða eins og tíðarfarið býður upp á,“ segir Pétur.

Upplýsingar um svæðin sem eru slegin má finna á kortavef Garðabæjar þar sem hægt er að sjá skiptingu svæða í bænum á ákveðin sláttustig. Með því að haka við „grassláttur“ undir „hagnýtar upplýsingar“ á kortinu má sjá hvernig sláttusvæðum í bænum er skipt upp.