29. jún. 2022

Greiðslur til forráðamanna leikskólabarna á biðlista

Bæjarráð Garðabæjar hefur samþykkt greiðslur til forráðamanna barna 12 mánaða og eldri sem eru á biðlista eftir leikskólavist í Garðabæ. Umsóknir um greiðslur til forráðamanna vegna barna 12 mánaða og eldri á biðlista eftir leikskólavist í Garðabæ eru nu komnar inn á Þjónustugátt Garðabæjar

  • Börn að leik

Bæjarráð Garðabæjar hefur samþykkt greiðslur til forráðamanna barna 12 mánaða og eldri sem eru á biðlista eftir leikskólavist í Garðabæ. Um er að ræða reglur sem gefur foreldrum barna með lögheimili í Garðabæ kost á því að sækja um þátttöku Garðabæjar í kostnaði vegna vistunar barns, þar til því býðst vistun á leikskóla í bænum, enda njóti þeir ekki annarra niðurgreiðslna vegna vistunar barnsins.

Greiðslur miðast við almenna niðurgreiðslu hjá dagforeldrum fyrir átta stunda vistun sem er kr. 90.269 á mánuði en greiðslur falla niður þegar barni býðst leikskóladvöl í Garðabæ.

Reglur þessar voru samþykktar í því skyni að brúa bilið frá fæðingarorlofi og þangað til barn fær vistun í leikskóla. Þau börn sem verða orðin 12 mánaða og ekki komin með boð um vistun falla þá undir ofangreindar reglur.

Börn sem fædd eru fyrstu dagana í júní 2021 hafa fengið boð um leikskólapláss í Garðabæ fyrir næstkomandi haust. Næsta úthlutun verður í vikunni eftir verslunarmannahelgi og þá verður börnum fæddum í júní, júlí og ágúst boðin dvöl.

Umsóknir á þjónustugátt Garðabæjar

Umsóknir um greiðslur til forráðamanna vegna barna 12 mánaða og eldri á biðlista eftir leikskólavist í Garðabæ eru rafrænar inni á Þjónustugátt Garðabæjar (undir umsóknir og leikskólar) ,  hér má sjá nánari upplýsingar um greiðslurnar og reglurnar má nálgast hér (undir flokknum fræðslu- og menningarmál).

 Ef barn sem er orðið 12 mánaða og eldri er ekki byrjað í leikskóla en búið að fá úthlutað plássi er hægt að sækja um greiðslur þar til barnið byrjar í aðlögun á leikskólanum, t.d. ef barn sem er 12 mánaða í júní 2022 byrjar í aðlögun í ágúst 2022 er hægt að sækja um greiðslur. Miðað er við mánuðinn sem barnið er fætt þannig að barn fætt t.d. 27. júní 2021 getur sótt um greiðslur fyrir júní mánuð 2022 ef barnið er ekki byrjað í leikskóla. Greiðsla kemur til útborgunar fyrsta virkan dag hvers mánaðar og greiðist eftirá fyrir nýliðinn mánuð.

Mikil uppbygging leikskóla framundan

Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar segir mikið framundan í leikskólamálum: „Við stöndum mjög vel að vígi í Garðabæ þegar kemur að aldri barna við inntöku í leikskóla og höfum það markmið að börn komist í leikskóla við 12 mánaða aldur. Við lítum á reglurnar sem tímabundið úrræði gagnvart börnum sem ekki hafa fengið vistun ársgömul. Mikil uppbygging leikskóla er í gangi í Garðabæ, en áætlanir okkar gera ráð fyrir að alls um 170 leikskólapláss bætist við á næstum mánuðum og misserum. Þar er um að ræða fyrri og seinni hluta Urriðabóls í Urriðaholti og einnig tvær deildir á Mánahvoli sem ekki hafa verið teknar í notkun vegna mönnunar. Þá höfum við sett upp áætlun um eflingu leikskólastigsins með áherslu á að mæta mönnunarvanda og bæta starfsaðstæður. Við munum halda áfram á þeirri braut.“

Sjá líka frétt hér á vef Garðabæjar frá 14. júní 2022.