Haldið upp á Dag leikskólans í Garðabæ
Dagur leikskólans er haldinn 6. febrúar ár hvert er þetta árið setti veðurspáin strik í reikninginn. Leikskólar Garðabæjar mótuðu sína dagskrá í tilefni dagsins en þurftu að fresta henni vegna veðurs.
Dagur leikskólans er haldinn 6. febrúar ár hvert. Leikskólar Garðabæjar hafa undanfarin ár haldið upp á Dag leikskólans með ýmsum hætti og vakið sérstaka athygli á leikskólastiginu, hlutdeild þess í menntakerfinu og samfélagslegu gildi fyrir atvinnulíf og fjölskyldur í landinu.
Hver leikskóli í Garðabæ mótaði sína dagskrá í tilefni dagsins en þetta árið setti slæm veðurspá strik í reikninginn og var dagskránni frestað lítillega.
Í mörgum leikskólum bæjarins var boðið upp á svokallað flæði á milli deilda í tengslum við Dag leikskólans, í slíku flæði fá börnin tækifæri til að kanna hina ýmsu króka og kima leikskólans og uppgötva þann efnivið sem er í boði á öðrum deildum.
Söngur, leikur, samvinna og rannsóknir
Á Kirkjubóli var farið í ævintýraferð í tilefni af Degi leikskólans. Þá var foreldrum og forráðafólki boðið að taka þátt í starfi leikskólans með söng og skemmtilegum verkefnum um allt húsnæðið.
Á Krakkakoti var líka boðið upp á flæði á milli deilda í tilefni dagsins. „Þá voru settar upp ákveðnar stöðvar á hverri deild t.d. vísindastöð. Ljós og skuggar, verðlaus efniviður, búningar og ball, leikur með leir, hrísgrjónum og annað sniðugt. Svo var boðið upp á kósístund með spjaldtölvum á ganginum,“ segir Ragnhildur Gunnlaugsdóttir, leikskólastjóri á Krakkakoti.
Á Ökrum var lögð sérstök áhersla á samvinnu og vináttu. „Við á Ökrum höfðum hópastarf þvert á deildir þar sem lögð var áhersla á vináttu og samvinnu. Þá héldum við upp á afmæli Blæs í samverustund inni á deildum,“ segir Guðrún Valgerður Ásgeirsdóttir, leikskólastjóri Akra. Svo var skemmtilegt samvinnuverkefni í boði í íþróttasal þar sem börnin fengu að lita og mála á stóra pappírsrenninga.
Á Holtakoti var börnunum einnig boðið upp á flæði á milli deilda fyrir hádegi og gómsætir ávextir voru á boðstólnum.
Urriðaholtsskóli bauð foreldrum leikskólabarna í heimsókn í leik undir yfirskriftinni Komdu að leika, sá viðburður hefur verið á dagskrá hjá þeim undanfarin ár og alltaf vakið mikla lukku.