Heilbrigð sál í hraustum líkama á Urriðabóli
Heilsuleikskólinn Urriðaból var opnaður í september síðastliðnum við Kauptún. Urriðaból í Kauptúni er sex deilda leikskóli fyrir 96 börn og er undanfari nýs leikskóla sem verður byggður við Holtsveg í Urriðaholti. Skólinn býður börnum upp á kærleiksríkt og öruggt umhverfi, þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín, hver á sinn hátt.
-
Börn á heilsuleikskólanum Urriðabóli
Heilsuleikskólinn Urriðaból var opnaður í september síðastliðnum við Kauptún. Urriðaból í Kauptúni er sex deilda leikskóli fyrir 96 börn og er undanfari nýs leikskóla sem verður byggður við Holtsveg í Urriðaholti. Stærð lóðarinnar í Kauptúni er um 5.000 m2 með bílastæðum, heildarstærð húsnæðis er um 931,1 m2. Þegar Urriðaból við Holtsveg verður tekið til starfa mun skólinn sinna allt að 210 börnum.
Urriðaból er sjálfstætt starfandi leikskóli og rekinn af Skólum ehf. með þjónustusamning við Garðabæ. Í skólanum gilda í meginþáttum sömu reglur og í öðrum leikskólum Garðabæjar s.s. reglur um inntöku og gjaldskrá.
Skólinn býður börnum upp á kærleiksríkt og öruggt umhverfi, þar sem einstaklingurinn fær að njóta sín, hver á sinn hátt. Leikskólastarfið síðustu vikna hefur gengið afar vel og eru kennarar og nemendur sáttir við upphaf skólaársins.
Læra að virða sína heilsu og annarra
Heilsuleikskólinn Urriðaból starfar eftir hugmyndafræði heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur en markmið skólans er að stuðla að heilsueflingu leikskólasamfélagsins með áherslu á næringu, hreyfingu og sköpun í leik. Samkvæmt henni eiga börn að alast upp við að læra að virða heilsu sína og annarra sem ómetanleg verðmæti og grundvöll fyrir fullnægjandi lífi. Í Heilsuleikskólanum Urriðabóli er heilsuefling höfð að leiðarljósi í einu og öllu.
Lögð verður áhersla á að móta skólastarf sem einkennist af virðingu fyrir leik og frelsi barna til að velja sér viðfangsefni út frá þroska og áhugasviði ásamt umhyggju fyrir líðan og velferð allra í skólasamfélaginu. Jafnframt er rík áhersla lögð á jákvæðan skólabrag og lærdómssamfélag með öflugri starfsþróun sem leið til stöðugra umbóta.
Leiðarljós leikskólans er „heilbrigð sál í hraustum líkama“ sem vísar í andlega, félagslega og líkamlega velferð með markvissri heilsueflingu í öllu skólasamfélaginu. Lögð er áhersla á að byggja upp hæfni starfsfólks og nemenda til að velja heilsusamlegt líferni, jákvæð og uppbyggjandi samskipti, ábyrga náttúruvernd, jafnrétti og lýðræði.