Hilmar Snær og Kolbrún Þöll eru íþróttamenn Garðabæjar 2019
Íþróttamenn Garðabæjar árið 2019 eru þau Hilmar Snær Örvarsson skíðamaður og Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikakona í Stjörnunni.
-
Kolbrún Þöll og Hilmar Snær
Íþróttamenn Garðabæjar árið 2019 eru þau Hilmar Snær Örvarsson skíðamaður og Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikakona í Stjörnunni.
Tilkynnt var um kjör þeirra sunnudaginn 5. janúar sl. við hátíðlega athöfn í íþróttamiðstöðinni Ásgarði. Lið ársins 2019 er Karlasveit meistaraflokks í GKG. Einnig voru afhentar viðurkenningar fyrir þjálfara ársins sem að þessu sinni voru þau Birgir Jónasson knattspyrnuþjálfari hjá UMFÁ og Daniela Rodriquez, körfuboltaþjálfari hjá Stjörnunni.
Viðurkenningar fyrir frábæran árangur innanlands sem utanlands
Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur, þ.e. til einstaklinga sem hlutu Íslands-, bikar- eða deildarmeistaratitla eða settu Íslandsmet. Í þetta sinn voru það alls 345 einstaklingar sem hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi árangur innanlands.
Alls hlutu 5 einstaklingar viðurkenningar fyrir A-landsliðsþátttöku og 28 einstaklingar fengu viðurkenningu fyrir þátttöku með yngra landsliði. Einnig hlutu 50 einstaklingar viðurkenningu fyrir árangur á erlendum vettvangi, EM, NM eða sambærilegt.
Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs og í ár voru það eftirtaldir einstaklingar sem fengu þær viðurkenningar: Þorsteinn Þorbergsson í Stjörnunni, Steinunn Guðbjörnsdóttir í Hestamannafélaginu Sóta og Guðrún Kolbrún Thomas í Félagi eldriborgara í Garðabæ.
Viðurkenningar á hátíðinni - nafnalisti (pdf-skjal)
Um íþróttamenn Garðabæjar 2019
Íþróttakarl Garðabæjar er Hilmar Snær Örvarsson – skíðamaður, íþróttir fatlaðra.
Árið 2019 var stórt ár hjá Hilmari Snæ, hann var fyrstur Íslendinga til vinna sigur á heimsbikar-mótaröð fatlaðra 2019 í alpagreinum í Zagreb þar sem heimsbikarmótið í svigi fór fram í janúar. Fáeinum dögum síðar fór fram sjálft heimsmeistaramótið í Kransjska Gora í Slóveníu og þar hafnaði Hilmar í fjórða sæti í svigi aðeins 28 hundruðustu úr sekúndu frá verðlaunasæti. Hilmar keppir í flokki aflimaðra (á öðrum fæti). Í Landgraaf í Hollandi náði Hilmar Snær síðan í tvenn verðlaun á heimsbikarmótaröðinni 2020 í svigi, þriðja sæti þann 5. nóvember og annað sæti þann 8. nóvember. Hilmar tók þátt í fjölmörgum mótum hér innanlands og endaði meðal annars í 6. sæti af 25 keppendum í svigi í karlaflokki á Skíðamóti Íslands sem haldið var á Dalvík 7. apríl. Á þessu ári hefur hann bætt punktastöðu sína mikið, sérstaklega í svigi sem hann hefur lagt meiri áherslu á. Þar hafa PARALYMPIC punktar hans farið úr 91 í 33 sem skiluðu honum úr 25. sæti upp í það 5. á heimslistanum en á heimslistanum eru 96 skíðamenn.
Hilmar Snær er einnig mjög frambærilegur golfari úr röðum GKG.
Íþróttakona Garðabæjar er Kolbrún Þöll Þorradóttir – fimleikakona í Stjörnunni.
Kolbrún Þöll gegndi lykilhlutverki í kvennaliði Stjörnunnar í hópfimleikum þar sem þær urðu bæði bikar- og Íslandsmeistarar 2019. Hún var í stóru hlutverki í öllum stökkseríum liðsins, en hún keppti í öllum umferðum á dýnu og trampólíni auk dansi. Hún var einnig í liðinu sem varð í öðru sæti á Norðurlandamótinu. Kolbrún Þöll er í dag besta hópfimleikakona heims í trampólín stökkum en hún hefur framkvæmt stökk með gífurlega háum erfiðleika í keppni. Þar má til dæmis nefna tvöfalt heljarstökk með beinum líkama og þremur og hálfri skrúfu og yfirslag heljarstökk með beinum líkama og tveimur og hálfri skrúfu. Hún er svo búin að vera að æfa þrefalt heljarstökk með hálfri skrúfu sem hún stefnir á að frumsýna í byrjun árs 2020, þá fyrst allra kvenna í keppni. Kolbrún Þöll er ekki bara frábær íþróttakona heldur einnig frábær fyrirmynd fyrir aðra iðkendur.