11. sep. 2019

Hjólum til framtíðar – Göngum'etta

Garðabær tekur þátt líkt og fyrri ár í Samgönguviku sem verður haldin 16.-22. september nk. Fjölmargir áhugaverðir viðburðir verða haldnir á höfuðborgarsvæðinu þá daga, meðal annars í Garðabæ þar sem hjólaráðstefnan Hjólum til framtíðar verður haldin föstudaginn 20. september nk.

  • Hjólum til framtíðar
    Hjólum til framtíðar

Garðabær tekur þátt líkt og fyrri ár í Samgönguviku sem verður haldin 16.-22. september nk. Fjölmargir áhugaverðir viðburðir verða haldnir á höfuðborgarsvæðinu þá daga, meðal annars í Garðabæ þar sem hjólaráðstefnan Hjólum til framtíðar verður haldin föstudaginn 20. september nk. Meginþema ráðstefnunnar í ár er Göngum‘etta. Þó það sé frábært að hjóla er ekkert sem jafnast á við að ganga til samgangna en það virðist hafa orðið út undan í hugsuninni um fjölbreyttar ferðavenjur.

Þá bjóða Hjólafærni og LHM uppá rólega hjólaferð fimmtudaginn 19. sept kl. 18 frá Garðatorgi. Ætlunin er að skoða aðstæður fyrir hjólreiðar í Garðabæ og svo verður endað á veitingastað IKEA kl. 19.30. Árni Davíðsson leiðir hjólaferðina.

Viðburðir í samgönguviku

Eftirfarandi viðburðir verða á höfuðborgarsvæðinu í samgönguvikunni:

1. Listin og náttúran í umhverfinu - hjólaleiðsögn um borgina:

Hjólreiðaferð á Degi íslenskrar náttúru og upphaf Samgönguviku 16. September kl 18-19:30 . Ferðin er skipulögð af Hjólafærni, Listasafni Reykjavíkur, Umhverfisstofnun og LHM.

2. Hvernig er að hjóla í Garðabæ? Upphitun fyrir ráðstefnuna Hjólað til framtíðar:

Hjólafærni og LHM bjóða uppá rólega hjólaferð fimmtudaginn 19. sept kl. 18 frá Garðatorgi. Ætlunin er að skoða aðstæður fyrir hjólreiðar í Garðabæ og endum svo á veitingastað IKEA kL. 19.30. Árni Davíðsson leiðir hjólaferðina.

3. Ráðstefnan hjólum til framtíðar 2019 - Göngum ´étta.

Föstudaginn 20. september 2019 munu Hjólafærni og Landsamtök hjólreiðamanna halda níundu ráðstefnu sína undir heitinu Hjólum til framtíðar. Meginþema ráðstefnunnar í ár er Göngum ‘etta. Þó það sé frábært að hjóla er ekkert sem jafnast á við að ganga til samgangna – en það hefur eiginlega alveg orðið út undan í hugsuninni um fjölbreyttar ferðavenjur. Sjá dagskrá á heimasíðu ráðstefnunnar Hjólum til framtíðar.

Hvar og hvenær: Sveinatungu, bæjarstjórnarsalurinn að Garðatorgi, Garðabæ kl. 10. Hjólreiðamenn safnast saman við Bakarameistarann Suðurveri kl. 8:45 og hjóla þaðan kl. 9 á ráðstefnuna.

Útsending á netinu: Ráðstefnan verður send út í beinni útsendingu og verður hlekkur settur á Facebooksíðu Landssamtaka hjólreiðamanna.

4. Bíllausi dagurinn og bíllausa gangan 22. september

Bíllausi dagurinn er haldinn sunnudaginn 22. september. Markmið dagsins er að hvetja til notkunar á öðrum ferðamátum en einkabílnum og verður frítt í strætó á höfuðborgarsvæðinu þennan dag.

Samtök um bíllausan lífstíl og Ungir umhverfissinnar standa að skipulagi að bíllausu göngunni (Reykjavík Mobility Parade) sem er fjölskylduviðburður og skrúðganga fyrir fjölbreyttan ferðamáta og eru t.a.m. gangandi, hlaupandi, hlaupabretti, hjólaskautar, hjól, rafhjól, rafhlaupahjól, nytjahjól, burðarhjól og létt bifhjól innilega velkomin.

Donkey Republic og hin íslenska rafhlaupahjólaleiga Hopp munu kynna ný hjól og bjóða þátttakendum að notast við þau í Bíllausu göngunni. Hægt verður að leigja Hopp og Donkey hjóla á upphafsstað kl. 12:30. Fyrstir koma fyrstir fá!

Hvar og hvenær: Mæting frá 12:30 en lagt verður af stað 13:00 á horni Klambratúns við Lönguhlíð/Miklubraut og endað á Lækjartorgi. Tveir strætisvagnar reka lestina og er velkomið að fá far með þeim.

Á áfangastað við Lækjartorg verða hátíðarhöld þar sem grínistar og fyrirlesarar ávarpa fjöldann. Fyrirtæki munu kynna framboð sitt á heilsárs varningi fyrir hjólafólk. Allir velkomnir að upplifa bíllausa, örugga Miklubraut þar sem mannlífið er í forgrunni á fjölbreyttum og virkum ferðamáta.