20. nóv. 2024

Iceland Noir hátíðin: Alex og Ævar ræddu við 7. bekkinga í Garðabæ

Rithöfundarnir Alex Falase-Koya og Ævar Þór Benediktsson hittu nemendur í sjöunda bekk og ræddu bækur og fleira skemmtilegt. Alex las svo upp úr bók sinni sem hann skrifaði með fótboltamanninum Marcus Rashford.

Breski rithöfundurinn Alex Falase-Koya hitti hóp sjöundu bekkinga í Garðabæ og las upp úr bók sinni Ævintýri morgunverðarklúbbsins: Skrímslið og týndi fótboltinn sem hann skrifaði með fótboltamanninum Marcus Rashford. Bókin fjallar um Marcus sem verður fyrir því óláni að týna fótboltanum sínum og þegar hann fer að leita að honum, ásamt vinum sínum, kemst hann að því að ekki er allt sem sýnist.

Rithöfundurinn Ævar Þór Benediktsson stýrði umræðum en það myndaðist líflegt samtal þegar nemendur fengu tækifæri til að spyrja Alex spurninga. Krakkarnir vildu til dæmis vita hvar Alex finnst best að skrifa, hversu lengi hann er að skrifa bækur, hvaðan hann fær hugmyndir og voru dugleg að taka þátt í umræðunum. 

Þessi skemmtilegi viðburður var haldinn í tengslum við bókmenntahátíðina Iceland Noir sem var sett í dag, 20 nóvember.

Í kvöld verður svo glæsileg dagskrá í Sveinatungu á Garðatorgi í tengslum við Iceland Noir þegar metsöluhöfundarnir Anthony Horowitz og Sara Blædel mæta á svæðið og spjalla við Yrsu Sigurðardóttur og Elizu Reid. 

Dagskráin hefst klukkan 19.00, nánari upplýsingar hérna. 

A_alex-aevar10

Alex-aevar9Alex-aevar6

Almar bæjarstjóri lét sig ekki vanta og sagði nokkur orð um lestur.

Alex-aevar1

Bókin sem Alex las upp úr fyrir hópinn.