Hraustir krakkar í Hjólakrafti hjóluðu með forsetanum
Forseti Íslands hjólaði með krökkum úr Garðabæ sem tekið hafa þátt í verkefninu Hjólakraftur í vetur. Hjólaferðin endaði í þetta sinn á Bessastöðum þar sem krakkarnir fengu hressingu.
Hópur kraftmikilla krakka úr Garðabæ hefur tekið þátt í verkefninu Hjólakraftur síðustu misseri. Hópurinn hefur hist reglulega og æft og hafa krakkarnir lagt sig vel fram í allan vetur. Hjá Hjólakrafti er stefnt á að taka þátt í WOW cyclothon, hringferðinni um Ísland í sumar og stendur krökkunum það til boða.
Á mánudaginn mætti forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson á æfingu í Sjálandsskóla og hjólaði með krökkunum í góða veðrinu. Hópurinn endaði á Bessastöðum þar sem boðið var upp á kleinur, hjónabandssælu og appelsín. Verkefnið hefur verið samvinnuverkefni Hjólakrafts, Sjálandsskóla, skóladeildar Garðabæjar og mannréttinda- og forvarnanefndar Garðabæjar.
Áhugasamir geta fylgst með starfsemi Hjólakrafts á Facebook og á vef félagsins, hjolakraftur.is